147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur kannski ekki fylgst með því að fram kom tillaga um að fjarlægja almenningsálitið úr þessum matskenndu atriðum og var það bara sjálfsagt mál þar sem fólk hafði áhyggjur af því atriði. Ég hef heldur hvergi haldið því fram að lögmenn séu eitthvað varhugaverðari en annað fólk. Það eru tvær starfsstéttir sem lög um uppreist æru ná yfir í þeim skilningi sem við leggjum í þau akkúrat núna, það eru lögmenn og endurskoðendur. Vissulega er eðlismunur á þessu tvennu; forréttindi og aðgengi lögmanna að ýmsu í samfélaginu og aðstöðu, sem endurskoðendur hafa á engan hátt, t.d. að Barnahúsi, t.d. barnaverndargögnum hvers konar. Margt fleira mætti telja upp. Þar á er því talsverður munur. Þegar fyrir liggur frumvarp og allir eru tilbúnir til málamiðlana spyr ég: Hvers vegna var ekki vilji til að klára það mál? Almenningsálitið? Það var farið út. Ég skil ekki þennan fyrirslátt.

Hvað varðar þessa aðgerð þá skilur hún eftir sig fullkomna réttaróvissu um borgararéttindi þeirra sem geta núna ekki fengið æru sína uppreista og þurfa að stóla á þessi lög. Það er nú bara þannig.

Í því ljósi finnst mér vert að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hefði verið lag að sjá alla vega til þess að lögmenn sem misst hafa æru sína hefðu einhverja leið til að fá lögmannsréttindi sín aftur því að það hefði líka verið niðurstaðan af lögmannalögunum.