147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:35]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Mig langar að nálgast málið út frá örlitlum efasemdarsjónarhól. Þannig er að þrátt fyrir allt erum við að afnema margra áratuga framkvæmd, hvað sem sagt verður um hana, á einum degi. Þó svo að þetta frumvarp hafi vissulega verið í smíðum í ráðuneytinu í nokkurn tíma sá ég það sem óbreyttur þingmaður fyrst fyrir örfáum klukkutímum. Í þeirri mynd sem frumvarpið var kynnt mér sem almennum nefndarmanni í allsherjar- og menntamálanefnd átti auðvitað að fylgja með sá hluti sem sneri að því hvernig menn gætu fengið ýmis borgaraleg réttindi sín aftur. En í þessum fyrsta áfanga sem hér er svo nefndur er stigið skref einungis í eina átt, þ.e. að taka burt heimild manna til að öðlast ákveðin réttindi að nýju. Menn sem fengu ákveðinn dóm í ákveðnum málum fyrir nokkrum misserum og sitja kannski núna í fangelsi gátu búist við því á sínum tíma að geta sótt þau réttindi aftur. En ef frumvarpið kemur fram með þessum hætti geta þeir það með erfiðara móti.

Auðvitað þarf að breyta ýmsum lögum í kjölfarið, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi. En er ekki ljóst út frá því sem stendur í greinargerð að verði það ekki gert erum við komin á hálan ís hvað varðar stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu?