147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:37]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli það megi ekki segja sem svo að framlagning þessa frumvarps hafi verið hugsuð sem skýr skilaboð frá Alþingi um að menn tækju alvarlega þá umræðu sem hér hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum, að þingið teldi óásættanlegt að fara heim og ganga til kosninga án þess að stíga einhver skref til að bregðast við. Það er í raun opinberað í greinargerðinni, og ég tók það fram í framsögu minni, að þetta er ekki fullkomið skref. Það má finna veika bletti á því að skipta þeim breytingum sem verða nú að eiga sér stað niður í áfanga. Í raun tók ég fram í framsögu minni að verði síðara skrefið ekki stigið, já, þá tel ég að menn séu komnir út á hála braut gagnvart atvinnufrelsisákvæðum, svo dæmi sé tekið. Og sömuleiðis gagnvart öðrum almennum borgaralegum réttindum sem varin eru bæði í stjórnarskrá og af alþjóðlegum sáttmálum.

Hins vegar efast ég ekki um að mikil og breið samstaða sé á þinginu um að halda þessari vinnu áfram. Þar sem ráðuneytið hefur lagt drög að slíku frumvarpi og er reyndar með það í umsagnarferli eins og rakið er í frumvarpinu finnst mér eins og ég sjái fyrir endann á því skrefi sömuleiðis, jafnvel þótt kosið verði seint í næsta mánuði. Það er ekki gallalaust að fara þessa leið. Mér finnst hins vegar skipta máli að skýr skilaboð komi frá þinginu, (Forseti hringir.) eins og ég rakti hér áðan, og ég tel að þau lagalegu álitaefni sem hér rísa séu viðráðanleg.