147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:39]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki jafn viss og margir aðrir um að það sé hlutverk þingsins með lagasetningu sinni að senda skilaboð, heldur fyrst og fremst að búa til umgjörð um þau réttindi sem borgararnir hljóta. Það er staðreynd að nýtt þing mun koma saman að loknum kosningum. Jafn mikið og við myndum vilja getum við ekki að fullu lofað hvað muni gerast á því þingi. Það er ekki fullvíst að þeir sem þar taka sæti muni gera borgaraleg réttindi sakamanna, brotamanna, að áhersluefni í málflutningi sínum og það verði sett í forgang.

Þess vegna langar mig einfaldlega að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann muni leggja á það þunga áherslu í þeim viðræðum um stjórnarmyndun eða framtíð þingstarfa á næsta þingi, fari svo að hann nái kjöri, að þessi mál verði sett í forgang og vinnu við þau lokið sem fyrst.