147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:40]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Ég get svarað því játandi að það sé augljóst að lögð verði áhersla á að ljúka þeirri vinnu. Það er ekkert annað í boði hér. Það er hluti af því að styðja málið að styðja áframhaldandi vinnu við heildarendurskoðunina.

Það má síðan margt segja um þá umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði og varðar annars vegar þetta hugtak, þá upplifun sem þolendur í t.d. kynferðisbrotamálum hafa haft af framkvæmdinni, vegna þess að sá þáttur málsins er í raun og veru annars eðlis en spurningin um hvort yfir höfuð tiltekin sértæk eða almenn borgaraleg réttindi skuli aftur endurreist eftir að viðkomandi hefur tekið út sína refsingu. Mér sýnist stefna í að slík endurheimt borgaralegra réttinda muni framvegis samkvæmt þeim bandormi sem mun koma fram á Alþingi innan tíðar tryggja að það muni gerast með sjálfkrafa hætti í framtíðinni, það verði engin umsókn, engin meðmæli, engin stjórnsýsluákvörðun, það verði ekki undir mati ráðherrans komið eins og heimildarákvæðið kveður á um í dag, heldur verði það einfaldlega fest í lög hvort og þá hvenær viðkomandi getur öðlast tiltekin sértæk réttindi. Almennu réttindin, og þá er ég sérstaklega að vísa til kjörgengis, held ég að sé algerlega óumdeilt að menn eigi að endurheimta.

Þessi þáttur málsins hefur kannski ekki fengið mjög mikla athygli eða umræðu. En að þessu leytinu til kann það sem sagt að verða niðurstaðan af allri endurskoðuninni að í vissum tilvikum mun það reynast fólki einfaldara, (Forseti hringir.) auðveldara, auðsóttara, að endurheimta réttindin sem öll umræðan hefur snúist um.