147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er gott að við erum að fara að gera eitthvað í þessum málum. Það er samt þannig að ef það er ekki alveg afmörkuð skýr tímalína á því hvernig eigi að halda áfram með málið — við vitum ekkert hvað gerist, við vitum ekki hversu langan tíma næstu ríkisstjórn tekur að reyna að koma sér saman — þá er ansi hætt við að mjög margir búi við óvissu. Þó svo að þetta séu viðbrögð við hörmulega lélegri meðferð í stjórnsýslunni á umsóknum um uppreist æru þá eru margir sem óska eftir að fá uppreist æru með þannig afplánun á bakinu að þeir munu eiga, samkvæmt anda laganna sem á að gera á næsta kjörtímabili, rétt á að sækja um og geta fengið þau réttindi sem þeir sækjast eftir. Það er náttúrlega mjög mikilvægt að hafa í huga. Mér finnst hafa verið svolítill misskilningur í umræðunni varðandi þetta því að annars vegar búum við sem betur fer í samfélagi sem er betrunarsamfélag. Þeir sem með sanni hafa betrast við að sitja í fangelsi rétt svo sem aðrir fá borgaraleg réttindi eftir að þeir hafa afplánað. Sem betur fer erum við ekki eins og Bandaríkin. En á hinn bóginn sýnir allt ferlið í kringum þetta mál að það er eitthvað rosalega mikið að framkvæmd ýmissa ákvæða og reglna og hefða í stjórnsýslunni.

Ég vonast til þess að það verði ekki einvörðungu hafður sá háttur á að framkvæmdin á þessu verði skoðuð og sett í eðlilegra og opnara ferli, heldur eigi það við um önnur mál sem eru einhvern veginn afgreidd fyrir luktum dyrum.

Það sem mér þætti gott að kæmi fram einhvers staðar í þessu ferli er að framkvæmdin, ástæða þess að við erum að fara að breyta lögum um uppreist æru, hefur valdið fólki miklu tjóni, sérstaklega og aðallega brotaþolum og fjölskyldum þeirra. Ég hef ekki orðið vör við að þeir sem lögðu þetta frumvarp fyrst fram og aðalflutningsmaður þess hafi gert mikið til að laga þann skaða sem þessu fólki hefur verið unninn eftir að það er þó búið að fara í gegnum mjög erfiða lífsreynslu.

Ég segi eins og hv. þm. Pawel Bartoszek að mér finnst þetta ekki vönduð lagasetning. Mér finnst þetta ekki vera á þann veg sem Sjálfstæðisflokkurinn talar gjarnan um og bara núna rétt áðan þá var talað um mikilvægi þess að lög væru vel unnin. Í stað þess að rífa þetta svona í sundur til þess að skora kannski einhver stig hefði verið hægt að afgreiða það með yfirlýsingu, það hefði verið hægt að taka lögmannalögin inn í þetta ferli. Það var búið að bregðast við ábendingum sem komu fram á fundum formanna um hvað mætti betur fara og reyna að laga það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gæti stutt það. En það var nú þannig að það var fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn sem vildi ekki breyta lögum um það hverjir geta fengið lögmannsréttindi.

Ég tel að þetta sé í raun og veru skref fram á við, en á sama tíma, eftir reynslu mína á þingi, þá treysti ég því ekki að þetta endi endilega vel nema gerð verði um þetta mjög stíf aðgerðaáætlun. Það kemur t.d. fram í máli háttvirts eða réttara sagt forsætisráðherra — ég veit ekki hvort maður kalli ráðherra sem situr í vantrausti í starfsstjórn hæstvirtan, þannig að ég ætla bara að sleppa því, forseti — það kemur fram í orðum forsætisráðherra í starfsstjórn að hann telji að það sé bara hægt að skítamixa til að fara fram hjá stjórnarskránni. Mér finnst það mjög furðuleg orð. Ég skil þetta ekki alveg.

Ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd sem fær þetta mál væntanlega inn á borð til sín fái minnisblað um hvort einhver réttaróvissa sé í málinu, hvort það sé einhver óvissa ef þessi bandormur verður ekki kláraður mjög hratt. Höfum við eitthvað garantí fyrir því að næsta þing muni fara strax í þá vinnu? Ég vonast til þess að það komi mjög skýrt fram hver vilji okkar er. Það er alveg nauðsynlegt að það fylgi hreinlega með lögunum því að við erum nýbúin að uppgötva það í lögum um útlendinga að ef eitthvað stendur ekki skýrt í lagabálknum og stendur bara í greinargerð þá telja þeir sem framfylgja lögum að þeim beri ekki að skoða anda laganna og það sem kemur fram í greinargerðum og ræðum þingmanna.

Það er alltaf að koma betur og betur fram að við verðum að vanda betur til lagasetningar. Þau lög og tillögur sem við erum með á borðinu á þessu stutta þingi hefðu þurft meiri tíma en einn dag til þess að klára þau, það er bara þannig, forseti. Mér finnst mikilvægt að sýna þeim sem hafa þurft að þjást út af þessu máli þá virðingu að við gefum okkur þann tíma sem við þurfum til þess að fara ítarlega yfir þetta þannig að við lendum ekki enn og aftur í því að það er galli í þeirri lagasetningu sem kemur frá okkur á þinginu.