147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:13]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Varðandi lokaorð hennar held ég að yfirmönnum stjórnsýslunnar sé stundum vorkunn að vinna annars vegar innan lagaumhverfis þar sem þeir hlíta ákveðnum lögum og reglum til að gerast ekki brotlegir í störfum sínum, og hins vegar að mæta umræðu eða kröfum þar sem þeir skynja sjálfir sársauka og hafa mikinn skilning á málunum en eru í viðjum lagarammans. Þeir eru kannski bundnir af því að þurfa oft og tíðum að stíga önnur skref en þeim sjálfum líður vel með, því miður.

Mig langar því tengt að spyrja hv. þingmann út í orðalag hennar varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir, sem fyrir mína parta eru einmitt viðbrögð ráðamanna til að mæta ákalli, þótt ekki væri nema til að bæta huglægt tjón þeirra sem urðu sárir og reiðir í umræðu sumarsins, þó að allir hér séu sammála um að þetta sé ekki fullkomin löggjöf. Þetta er ekki síðasta skrefið. En er ekki verið að reyna þarna, innan marka laga, að mæta ákalli samfélags?

Þar sem hv. þingmaður stendur hér og segir að þessi lagasetning gangi ekki nógu langt langar mig að spyrja hana góðfúslega og virðingarfyllst: Verið er að mæta ákalli samfélagsins með þessu fyrsta skrefi. Er ekki örlítil þversögn í því annars vegar að segja núna að það gangi ekki nógu langt og segja svo í hinu orðinu þegar ráðamenn fylgdu lögum og reglum, að þeir hafi átt að gera eitthvað annað af því að þeir áttu að mæta samfélaginu? (Forseti hringir.) Mig langar aðeins að fá betri útskýringu á því.