147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið að velta fyrir mér dagskrá þessa fundar. Nú hefur forseti lokið fleiri þingum hér en ég mun sjálfsagt nokkru sinni gera. En við erum enn og aftur að ræða mál sem samið er um í einhverri pressu, mál sem reynt er að koma í gegn með einhvers konar samningum og þeim er breytt og svo framvegis.

Við vorum hérna fyrir tæpu ári síðan á svipuðum slóðum, minnir mig, að semja um einhver mál eða reyna að klára þingstörf. Ég verð að segja að þetta eru allt mikilvæg mál. En ég spyr, herra forseti: Hvernig stendur á því að við erum ekki með hér á þessari dagskrá eitt brýnasta málið sem leysa þarf úr í dag? Ég tek ekki undir með hv. þingflokksformanni Vinstri grænna um að mikilvægasta málið sé að koma börnum í skjól, ég held að hún hafi sagt það. Það er mikilvægt mál. En það er jafn mikilvægt að koma til móts við og bjarga fjölskyldum sauðfjárbænda sem enginn hefur nefnt hér í þessum sal.

Nú ranghvolfa sumir þingmenn augunum.

Mig langar bara að vita: Hverjir komu í veg fyrir að hægt væri að leysa þau mál fyrir þinglok? Hverjir stóðu að því? Mér er sagt að það hafi verið rætt á fundum formanna að leysa þau mál en ekki hafi náðst um það samkomulag. Ég sagði á þingflokksfundi í síðustu viku að ef þetta yrði skilið út undan tæki ég ekki þátt í að afgreiða þau mál sem hér eru á dagskrá. Því að það mál sem ég nefndi hér; fjölskyldur, býli, framtíð, atvinna sauðfjárbændanna, er ekki minna mikilvægt en þessi þrjú mál hér, svo því sé nú haldið til haga.

Ég bið þingmenn að hafa það í huga.