147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Með frumvarpi þessu er um að ræða lítinn plástur á svöðusár þolenda kynferðisofbeldis og annarra sem hafa átt um sárt að binda vegna ömurlegra stjórnarhátta í þessu máli sem og öðrum sem tengjast uppreist æru. Þessi plástur græðir ekki þau sár sem urðu af uppreist æru Róberts Árna Hreiðarssonar. Eða Hjalta Sigurjóns Haukssonar.

Hann græðir ekki sárin sem hlutust af því þegar æðsti dómstóll þessa lands komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri varhugavert að maður sem dæmdur hafði verið fyrir að misnota fimm ungar stúlkur fengi lögmannsréttindi sín að nýju. Ekki varhugavert.

Þessi plástur sem hér liggur fyrir græðir ekki sár þeirra sem höfðu hátt, leituðu svara og kröfðust þess að á þau yrði hlustað en fengu aðeins hroka, yfirlæti og smættun þeirra brota sem þau höfðu þolað fyrir vikið.

Þessi plástur breytir engu um þá framkomu stjórnvalda að neita brotaþolum og aðstandendum þeirra um sjálfsagðar upplýsingar um hvernig það megi vera að kvalara þeirra sé veitt mannorðsvottorð af ráðherra og hvernig að því var staðið. Neitað um aðgang að sjálfsögðum upplýsingum með hortugum yfirlýsingum um að þau ættu á þeim engan rétt.

Þessi plástur breytir engu um það að hæstv. dómsmálaráðherra talaði um vélræna afgreiðslu sem þessi mál hafa hlotið, um það hvernig hver ráðsmaðurinn á fætur öðrum steig fram og sagði: Ég ber ekki ábyrgð á þessu, kerfið gerir það, ég gerði þetta ekki, ég skrifaði bara undir af því að kerfið sagði mér að skrifa undir, það var bara eitthvert minnisblað sem lét mig gera það. Þetta breytir engu um það.

Hér erum við að tala um skurðaðgerð sem fjarlægir eitt lítið æxli af mörgum sem upp komu eftir að brotaþolar og aðstandendur þeirra fóru að hafa hátt. Og þetta þing var ekki reiðubúið að taka fyrir annað öllu stærra sem var það að ekki þykir varhugavert að maður sem hefur misnotað fimm ungar stúlkur fái lögmannsréttindi sín að nýju. Honum er greinilega treystandi því að ekki þykir varhugavert að hann fái þau að nýju og ekkert skal gert til að tryggja að álíka ástand komi ekki fyrir aftur áður en við göngum til kosninga. Enda er ekki varhugavert að menn sem drepa aðra menn eða misnota ungar stúlkur eða misnota fatlaðar konur geti bara fengið þá forréttindastöðu í samfélaginu að vera lögmenn.

Herra forseti. Hér lá fyrir tillaga um að einhver, bara einhver, aðili tæki þá ábyrgð að vega og meta hagsmuni einstaklings sem sækist eftir að fá þau forréttindi að gegna starfi lögmanns aftur að nýju eftir að þau hafa verið af honum tekin vegna brota sem nota bene geta kallast svívirðileg af almenningsáliti, vega og meta þau gagnvart hagsmunum samfélagsins um hvort samfélaginu beri að treysta mönnum sem hafa gerst sekir um að misnota aðstöðu sína, um að misbeita valdi sínu, um að nota kúgun, blekkingar og aðrar viðbjóðslegar athafnir til að neyða fólk, nauðga því eða kúga á annan hátt. Hvort samfélagið þarfnist kannski ekki lögmanna sem hafa ekki gerst sekir um slíkt.

Í þessu samhengi má ég til með að leiðrétta þá rangfærslu sem fram kom í máli sitjandi forsætisráðherra um að sú sem hér stendur hafi lagt til að Lögmannafélag Íslands skyldi á einhvern hátt meta hvað almenningsálitið segði um brot þeirra manna sem sækjast aftur eftir lögmannsréttindum. Það er bara alls ekki rétt. Sú sem hér stendur lagði fram frumvarp sem einfaldlega tók fyrir að fólk sem gerst hefði sekt um að misnota börn, nauðga fólki, drepa fólk og standa að annarri kynferðislegri misbeitingu geti bara fengið lögmannsréttindi. Hins vegar kom fram sáttatillaga, hún er ekki úr minni smiðju, sem sá til þess að það yrði alla vega eitthvert efnislegt mat þannig að einhver aðili, í þessu tilfelli Lögmannafélag Íslands, tæki á sig þá ábyrgð að vega og meta þá samfélagslegu hagsmuni sem felast í að það séu heiðvirðir og góðir menn og konur sem sinna þessu mikilvæga starfi, gegn því að fólk eigi rétt á að fá einhver starfsréttindi sem lögmenn, sem er forréttindastaða í samfélaginu. Það verður einhver að leggja mat á þetta.

Hingað til hefur það ekki verið gert. Dómstólar gerðu það ekki. Sýslumaðurinn telur sig ekki geta gert það. Því lögin okkar gera enga kröfu um að það standi einhver með almenningi, með samfélaginu, með brotaþolum þeirra manna sem sækjast eftir að fá lögmannsréttindi sín á ný eftir að hafa brotið með mjög varhugaverðum hætti gegn lögum landsins. Það var enginn sem tók ábyrgð á því. Þetta frumvarp gerir ekkert til að laga það. Og þetta þing var ekki reiðubúið að sjá til þess að einhver tæki ábyrgð á að þeir sem veljast til lögmannsstarfa séu þess verðir að sinna því mikilvæga starfi. Það voru mikil vonbrigði.

Þetta frumvarp gerir heldur ekkert til að taka á þeim risavaxna skorti á upplýsingafrelsi sem gildir hér á landi. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Því mætti til dæmis breyta með nýrri stjórnarskrá, sem þetta þing hefur afþakkað pent líka.

Það sem frumvarpið, og ákvæðið, gerir hins vegar er að fjarlægja uppreist æru úr almennum hegningarlögum. Það er það eina sem það gerir. Fyrir utan að það fjarlægir þá svívirðu sem hefur verið í almennum hegningarlögum, en þar stendur að það megi ekki minnast á brot þeirra sem hafa fengið uppreist æru sinnar. Sem betur fer, segi ég, er alla vega búið að fjarlægja þessa svívirðu úr lögunum, sem er náttúrlega hörmuleg og ógeðsleg aðför að málfrelsi brotaþola. Ég fagna því að þetta frumvarp taki að minnsta kosti til þess. En það hefði mátt ganga miklu lengra. Og ef það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir í ræðu sinni um þetta mál, eða í andsvari við hv. þm. Pawel Bartoszek, um að í frumvarpinu felist ákveðin skilaboð frá þinginu ætti hæstv. forsætisráðherra að sjá sóma sinn í að koma hingað og biðjast afsökunar á framgöngu sinni í þessu máli. Það mætti sitjandi dómsmálaráðherra líka gera.