147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna og framgöngu hennar í málinu frá því í sumar. Án þess að halla á nokkurn annan held ég að þingmennirnir Svandís Svavarsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eigi öðrum fremur heiður að því að þessi mál hafi komist með jafn afgerandi hætti á dagskrá þingsins.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu eru 28 lög sem þyrfti að endurskoða í framhaldi af þessari lögfestingu. En það er eitt sem ekki er nefnt sem okkur hefur verið bent á reglulega síðan þessi mál komust í hámæli. Það eru æskulýðslög. Það er lagabálkur sem snýr að því að til að mega sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri megi fólk ekki hafa gerst brotlegt við börn og ungmenni en uppfletting í sakaskrá standi í vegi fyrir því að þeir sem skipuleggja slíka starfsemi geti sannreynt að umsækjendur um slík störf séu með hreinan skjöld í þeim málum. Mig langar aðeins að fá þingmanninn til að koma inn á þetta.