147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:32]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að inna þingmanninn eftir svipaðri yfirlýsingu, afstöðu, í anda þess sem ég hef verið að fiska eftir hjá öðrum þingmönnum sem hafa tekið til máls um frumvarpið. Eins og þingmönnum er kunnugt koma fram í 4. kafla greinargerðarinnar ákveðnar efasemdir sem koma fram í orðunum, með leyfi forseta:

„Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið fjallað um rétt einstaklinga til að bjóða sig fram í kosningum. Dómarnir veita leiðbeiningu um að heimilt sé að mæla fyrir um vissar takmarkanir á þeim rétti, en að miklu skipti að gætt sé meðalhófs við slíkar takmarkanir og að þær séu ekki ótímabundnar.“

Frá því að við samþykkjum þessa lagabreytingu, sem ég ímynda mér að við gerum, og þangað til endurskoðun á t.d. kosningalögum fer fram, þá munu þær ráðstafanir vera með öllu ótímabundnar gagnvart ákveðnum einstaklingum, þeim einstaklingum sem hafa hlotið dóm um lengri en eitt ár. Þeir munu ekki hafa nein færi til að bjóða sig fram í þeim kosningum sem nú eru fram undan eða næstu kosningum, nema við breytum lögunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að ég veit að hún lætur mannréttindi og borgaraleg réttindi sig varða hvort hún telji það ásættanlegt að í ákveðinn tíma geti menn ekki notið þeirra réttindi að geta boðið sig fram með neinum hætti. Mig langar líka að inna hana eftir því sem kom fram í andsvari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn mína um að hann sæi fyrir sér í framtíðinni að með breyttum lögum yrði þessi endurheimt borgararéttinda sjálfvirk, hvort henni lítist vel á þá lausn eða ekki.