147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja þessa umræðu sérstaklega. En mér finnst mikilvægt að snerta aðeins á henni. Eins og allir vita er hér um að ræða einfalt frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum til þess að taka út heimildir til að veita uppreist æru. Þetta einfalda frumvarp er komið fram eftir langar samningaviðræður allra flokka sem sitja á Alþingi, sem eitt af örfáum málum sem við snertum á hér á þinginu áður en við göngum til kosninga. Kosninga sem við göngum til vegna þess að ríkisstjórnarsamstarfi var slitið eftir að upp komst um enn meira pukur í kringum veitingu uppreistar æru en nokkurn hafði grunað að ætti sér stað.

Það að veita uppreist æru er nokkuð sem við könnumst við. Við könnumst við orðalagið, kannski ekki síst vegna þess að það hljómar ankannalega. Orðið æra er ekki hversdagslegt fyrir okkur flest, en við þekkjum það og veltum því fyrir okkur þegar við heyrum orðið æra: Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir að hafa æru? Hvað þýðir að hafa óflekkað mannorð, eins og kemur fram í lögunum?

Auðvitað höfum við öll ákveðnar hugmyndir um það. Í samfélagi eins og hér á Íslandi eru þær hugmyndir nokkuð samhljóma. Það að vera ærlegur, að hafa gott mannorð, óflekkað mannorð, er ekki tæknileg skilgreining samkvæmt lögum, heldur nokkuð sem samfélagið tekur siðferðislega afstöðu til. Sú siðferðislega afstaða breytist.

Það er mjög ánægjulegt og ég held að við séum öll stolt af því að búa í samfélagi sem hefur þróað þessi siðferðislegu viðmið mjög hratt og örugglega og jafnvel umfram það sem gerist almennt þegar kemur að réttindum og virðingu mismunandi þjóðfélagshópa, þegar kemur að jafnrétti kynja, eins og kemur aftur og aftur í ljós að Íslendingar standa framar öðrum þjóðum. Hugtakið æra og mannorð fylgir þessum siðferðisviðmiðum.

Í íslensku lagasafni höfum við haft lög um uppreist æru, heimild til að veita uppreist æru sem er í raun og veru í mínum huga því sem næst miðaldaskilgreining. Þetta er aldargömul skilgreining sem byggir í raun og veru á því að feitur kóngur eða einhverjir miðlægir valdsmenn hafi rétt til að skilgreina hverjir séu ærlegir, hverjir séu ekki ærlegir, hverjir eigi mannorð og hverjir ekki. Síðan höfum við skrifað og háttað mörgum lögum þannig að gert sé ráð fyrir því að menn hafi ákveðin réttindi, menn séu útilokaðir frá ákveðnum réttindum hafi þeir ekki þetta skilgreinda mannorð valdsins.

Ég held að við séum öll fyrir löngu búin að kasta því í burtu að þetta sé eðlilegt, að valdsmenn, hvort sem þeir eru ráðherrar eða hvað, hafi rétt til þess að skilgreina mannorð og æru. En lögin hafa hins vegar boðið upp á það. Og ástæðan fyrir því að minn flokkur, Björt framtíð, sá sér ekki fært að sitja áfram í ríkisstjórnarsamstarfi er sú að upp komst um pukur og leynd í sambandi við mál í kringum uppreist æru, og ástæða þess að allt logar er að engan grunaði að verið væri systematískt að nota þessa lagabókstafi, að ákveðnir einstaklingar sem höfðu betri tengsl eða hreinlega meiri þekkingu á lögunum nýttu sér löngu úreltan lagabókstaf.

Síðan kemur í ljós þegar verið er að skoða þessi lög, og ég vil að það sé skýrt sagt hér að það er alveg augljóst að sitjandi dómsmálaráðherra og fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum á þingi hafa lýst yfir eindregnum vilja til þess að taka þennan lagabókstaf í burtu og koma í veg fyrir að þetta ástand haldi áfram. En þegar farið er að skoða hann sjáum við hversu mörg lög gera ráð fyrir að borgaraleg réttindi og ýmiss konar starfsréttindi séu háð því að menn séu með óflekkað mannorð. Það er talið upp í greinargerð með frumvarpinu að einum 28 lögum auk 34. gr. sjálfrar stjórnarskrárinnar þurfi að breyta til að bregðast við því að nú sé ekki lengur heimild til að veita mönnum óflekkað mannorð.

Ég held að það sé mjög gott og mikilvægt fyrir okkur í framhaldinu að unnið verði í svokölluðum bandormi, það verði farið í öll þessi lög til að skilgreina við hvaða aðstæður, ef einhverjar, hafi menn gerst alvarlega brotlegir þeir geti endurheimt borgaraleg réttindi. Mikið hefur verið talað um lögmannsréttindi, sem er auðvitað eitt í þessum lögum. En hér eru líka lagabókstafir þar sem hugtakið hefur ratað inn eins og t.d. möguleiki á stjórnarsetu í Landsvirkjun. En kjörgengi, réttur til lögmannsstarfa, endurskoðendastarfa o.s.frv. er kannski það sem er augljósast að þurfi að endurskoða. Þá þarf að taka líka sjálfstæða ákvörðun um hvort og við hvaða aðstæður menn geti endurheimt réttindi til þess að gegna ákveðnum störfum eða kjörgengi, til dæmis.

Þar sem við erum að fara í kosningar með mjög skömmum fyrirvara og nokkuð ljóst að þetta var eitt af þeim málum sem við gætum ekki klárað með bandormi alla leið á þeim fáu vikum er okkur eru gefnar fram að kosningum finnst mér mjög mikilvægt að við stígum þó þetta skref, að taka út heimild til að veita uppreist æru. Að mörgu leyti er þetta symbólísk ákvörðun. Við vitum að við, eða næsta þing, eigum eftir að taka á hinum lögunum í bandorminum. En það að þetta þing fari heim í kosningar án þess að við samþykkjum þetta frumvarp og sýnum almenningi á Íslandi, sýnum fólki sem hefur verið að mörgu leyti eins og flakandi sár svo mánuðum skiptir vegna þessara mála, sýnum þolendum sem hafa fengið fréttir eftir krókaleiðum af uppreist æru brotamanna, að við sýnum fólki þá virðingu að staldra við og draga þessar heimildir til baka, held ég að sé spurning um sæmd Alþingis. Ég fagna því að við séum með þetta mál hér á dagskrá, styð það heils hugar, en legg líka mikla áherslu á, og það verða að vera skilaboð til næsta þings, að sú vinna sem er eftir, sá bandormur eða þær lagabreytingar sem eru eftir, að unnið verði í þeim hratt og örugglega.