147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra minntist á að málið tengdist ákveðnum trúnaðarbresti sem varð til þess að ríkisstjórnarsamstarfið slitnaði. Í umræðum nýlega hefur verið vakin athygli á því að eftir að umboðsmaður Alþingis kom á nefndarfund og útskýrði að ekki hefði verið rangt að veita upplýsingarnar, eða hvernig sem það var, var því spyrt við að það hefði verið upphlaup hjá Bjartri framtíð að slíta stjórnarsamstarfi út af trúnaðarbresti. Ýjað var að því að það hefði ekki verið neinn trúnaðarbrestur. En ég skil alla vega að trúnaðarbresturinn hafi verið annars staðar en umboðsmaður Alþingis lýsti á nefndarfundinum. Mig langaði að biðja hæstv. ráðherra að útskýra betur hver þessi trúnaðarbrestur var í raun og veru til þess að enginn vafi leiki á því af hverju þetta mál var svona mikilvægt í samstarfi ríkisstjórnarflokkanna.