147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það er einfalt að segja frá því, þó svo að það komi ekki beinlínis þessu frumvarpi við, en sá trúnaðarbrestur sem olli því að Björt framtíð ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu er, eins og hv. þingmaður bendir á, ekki lagatæknilegur. Hann er annars vegar sá trúnaðarbrestur sem kemur í ljós í úrskurði úrskurðarnefndar sem úrskurðar að ólöglegt hafi verið að neita fjölmiðlum og almenningi um upplýsingar. Það er trúnaðarbrestur sem er almennt í stjórnkerfinu, eða alla vega víða, þ.e. sú tilhneiging að veita ekki upplýsingar nema nauðsynlegt sé, þ.e. hið staðlaða svar er að upplýsingar séu ekki veittar, en ekki að upplýsingar séu veittar nema ekki sé leyfilegt að veita þær.

Það er annars vegar sá trúnaðarbrestur sem við höfum talað um, en auðvitað er það ekki síður sá trúnaðarbrestur sem varð innan ríkisstjórnarinnar þegar ráðherrar eins ríkisstjórnarflokksins ræddu sín á milli upplýsingar sem voru viðkvæmar pólitískt séð en upplýstu ekki um það, hvorki almenning né samstarfsflokka eða annarra ráðherra, sem í lýsti okkar huga í Bjartri framtíð vantrausti á því samstarfi sem við töldum að þyrfti traust til þess að geta staðið.