147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[16:00]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég hef í andsvörum mínum við nokkra þingmenn komið að ákveðnum efasemdum og áhyggjum sem ég hef varðandi nokkra þætti þessa frumvarps. Mig langar örsnöggt að stikla á þeim.

Í fyrsta lagi er nefnt í 4. kafla greinargerðar frumvarpsins að samkvæmt Mannréttindadómstóli Evrópu beri að gæta meðalhófs við takmarkanir á kjörgengi og þær verði ekki ótímabundnar. Með samþykkt þessa frumvarps, þótt hér sé verið að bregðast við að margra mati nauðsynlegum hlutum, verður niðurstaðan engu að síður sú að þessar takmarkanir verða, alla vega um stund, ótímabundnar. Þeir sem eru með dóm á bakinu sem er lengri en eitt ár, eða þeir sem afplána slíkan dóm í fangelsum landsins, munu frá gildistöku þessara laga og þangað til bandormurinn verður samþykktur, ef það verður, ekki geta notið þeirra borgararéttinda að geta boðið sig fram til þings.

Í 5. kafla um mat á áhrifum frumvarpsins er vísað í bandorminn og síðan segir, með leyfi forseta:

„Þar til þeirri endurskoðun lýkur mun frumvarpið, verði það að lögum, því hafa þau áhrif að sá hópur manna sem ekki nýtur þeirra borgaralegu réttinda sem uppreist æru hefur í för með sér, fari stækkandi.“

Þetta er auðvitað dálítið erfitt og snúið. Það má auðvitað spyrja sig hvenær er góður tími, hver er rétti tíminn þar sem samfélagið býr við það réttarástand að ákveðinn hluti fólks getur ekki endurheimt borgaraleg réttindi sín. Það sem ég hugsa fyrst er að sá tími sé nálægt því að vera núll dagar eða núll mánuðir. Það væri æskilegur tími sem slíkt réttarástand myndi vara því að við getum auðvitað ekki lofað því hvað gerist í framtíðinni. Þrátt fyrir að í yfirlýsingum sínum hafi margir þingmenn heitið því að þeir muni vinna að endurskoðun laga þegar þing kemur saman aftur, nái þeir kjöri, þá eru menn engu að síður ekki að öllu leyti sammála um hvað eigi nákvæmlega að felast í slíkri endurskoðun. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, hæstv. forsætisráðherra, nefndi það í ræðu sinni að að hans mati myndi frumvarpið hafa það í för með sér í flestum tilfellum að þessi endurheimt yrði sjálfvirk. Síðan hefur það komið fram hjá hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur að henni hugnaðist ekki endilega að það myndi gilda, alla vega ekki um alla glæpi.

Ég er ekki efins um þann ásetning fólks að vilja vinna að endurskoðun þessara laga, endurskoðun þessa bandorms, en það getur vissulega gerst að á næsta þingi muni ekki skapast sátt um með hvaða hætti nákvæmlega sú endurskoðun eigi að vera og það muni verða til þess að málið rúlli áfram um einhverja stund. Á meðan fari vaxandi sá hópur fólks sem ekki getur endurheimt borgaraleg réttindi sín. Ég veit ekki hve stór sá hópur er en ég veit að það er fólk sem situr í fangelsum landsins sem hefur ákveðnar áhyggjur af þessu. Þetta er stundum ferli sem menn ganga í gegnum til þess að setja ákveðinn endapunkt við ákveðið skeið í ævi sinni, þó svo að þau dæmi sem hér hafa komið til umræðu og komið í fréttum hafi ekki endilega vera bestu dæmin um nýtingu á slíkum ákvæðum.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra að sinni. Ég geri ráð fyrir að frumvarpið verði tekið til umfjöllunar í nefnd.

Ég ætla að lokum að fara örlítið í gegnum frumvarpið. Það er ekki langt. Í a-lið 1. gr. er talað um breytingu á 84. gr., sem er þetta sjálfvirka ferli. Ég sé ekkert athugavert við að því sé breytt. Að sama skapi finnst mér sjálfsagt að 2. mgr. 238. gr. falli brott, sem fjallar um að óheimilt sé að bera menn aftur þeim sökum eftir að þeir hafi öðlast uppreist æru, sem særir alla vega að einhverju leyti mína réttlætiskennd. Ég veit að það gerir það einnig í tilfellum margra annarra. Ég hef ákveðnar efasemdir um svo fortakslausa brottvikningu 85. gr. sem hér er lögð til án þess að neitt annað komi í staðinn nema fyrirheit í greinargerð um að þessi mál verði endurskoðuð. Ég held að það hefði hugsanlega farið betur á því að skerpa á því með einhvers konar bráðabirgðaákvæði. Ég hef lokið máli mínu.