147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál sem ég fagna að er fram komið og ég fylgdist með að yrði hluti af niðurstöðunni hér, „samkomulag um lúkningu þingstarfa“. Þetta er að verða gamall kunningi. Sams konar breyting og kom fram í máli framsögumanns var gerð fyrir kosningar 2009 og aftur fyrir kosningar 2016. Hér erum við í þriðja sinn stödd við þær aðstæður að kosningar ber að með óvæntum hætti eða þannig innan ársins að varanlegu lagaákvæðin um þetta reynast meingölluð. Ég held að þessi þriðja uppákoma af þessu tagi ætti að vera okkur nægjanleg áminning, til að endurskoða fyrirkomulag þessara laga til frambúðar.

Það á að sjálfsögðu ekki að vera með einhverja sérstaka dagsetningu sem þvælist inni í lögunum fyrir því að íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis lengur en þessi almennu átta ár geti bara hvenær sem er tilkynnt sig inn og reglan sé einfaldlega þannig að það sé einhver tímafrestur fyrir kjördag sem vaknar til þess að Þjóðskrá geti útbúið og fært menn inn á kjörskrá. Ég held að það sé eitt af því sem ætti að taka til skoðunar, má auðvitað vera með í endurskoðun kosningalaga þar sem ýmislegt fleira hefur staðið til og ég veit um. Að þessu þarf að huga ef það fer nú að verða meira reglan en undantekningin á Íslandi, að kosningar beri óvænt að og einhvern tíma þannig innan ársins að það komi í veg fyrir að fólk geti með eðlilegum hætti og eðlilegum aðdraganda óskað eftir því að nýta sér þennan rétt. Hann er mjög mörgum íslenskum ríkisborgurum kær sem tímabundið hafa búsett sig erlendis, geta verið erlendis um alllangan tíma vegna starfa sinna, jafnvel í þágu landsins o.s.frv., flytja þar af leiðandi lögheimilið en halda sínum ríkisborgararétti og eiga að sjálfsögðu fulla rétt til að taka þátt í alþingiskosningum.

Þetta leysir málið þá í þessari umferð og býr til tíma fram til 11. október til að menn geti tilkynnt sig inn. Ég hef áður sinnt þessum málum eða tekið þau upp, þar á meðal í fyrrahaust, fyrir rúmu ári, og hef þegar á undanförnum dögum fengið fjölmargar fyrirspurnir um það erlendis frá hvort þessu verði ekki kippt í liðinn aftur núna. Það er sem sagt gott.

Herra forseti. Að öðru leyti vil ég bara segja um þessi þinglok, því ekki er víst að ég taki hér oftar til máls, að ég er eftir atvikum sáttur við þá niðurstöðu sem hefur orðið í kjölfar mikilla fundarhalda formanna flokkanna. Fjögur mikilvæg mál eru hér undir sem fá þó úrlausn fyrir þingfrestun. Það er það sem rætt var síðast, um breytingar eða brottfall ákvæða um uppreist æru, það er mjög mikilvæg breyting á útlendingalögum, það er þessi lagfæring á kosningalögunum og það er samkomulag sem vonandi lítur dagsins ljós og verður gert opinbert á þessum degi um að búa eins vel um mikilvæg mál sem því miður næst ekki að afgreiða og varða þjónustu við fatlaða, annars vegar fatlaða með miklar þjónustuþarfir, oft nefnt NPA, og hins vegar endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og tengd mál. Þrátt fyrir mikinn velvilja og hug reynast ekki aðstæður til að ljúka því, augljóslega ekki á þessum degi. En í staðinn er, eftir gott samstarf í velferðarnefnd og með fundarhöldum, m.a. með hæstv. ráðherra, búið að reyna að innsigla samkomulag um eins vandaðan frágang á því máli og nokkur kostur er þar sem allt er gert sem mögulegt er til að eyða allri óvissu sem að notendunum snýr í framhaldinu á næstu mánuðum þannig að ekkert rof komi í þjónustuna og áfram verði hægt að vinna að áformum um þær umbætur á þessu sviði sem til standa.

Þetta finnst mér vera ásættanleg uppskera og er sáttur við að hverfa á vit kosningabaráttunnar að þessu dagsverki loknu.