147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi fagnað því aðeins of snemma að þetta yrði í síðasta skipti sem hann tæki til máls á þessu þingi. Þetta var ræða sem eins og svo oft hjá hv. þingmanni var áhugavert að hlusta á og fín ábending sem sneri að því að við erum hér í þriðja skipti að setja bráðabirgðaákvæði inn í kosningalögin. Ég myndi vilja fá nánar og skýrar frá þingmanninum hvernig hann myndi vilja sjá kosningalögin verða varanlega.

Þetta frumvarp er flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér skilst að nefndin hafi ekki hugsað sér að kalla málið aftur til sín. Í skýringartexta með 3. gr. er rökstuðningur fyrir því af hverju eðlilegt er að hafa sólarlagsákvæði í lögunum þar sem verið er að gera eitthvað sem átti bara að vera tímabundið. En ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé að benda hér á ákveðna grundvallarspurningu sem við þurfum að svara: Væri eðlilegast að hafa svona ákvæði, að menn einfaldlega detti bara ekki út, geti kært sig hvenær sem er inn á kjörskrá? Eða eru þingmenn þeirrar skoðunar að við viljum fara í hina áttina? Það vakti athygli mína í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi að umtalsverður fjöldi breskra ríkisborgara sem bjó erlendis hafði ekki möguleika á að tjá afstöðu sína, það var bara ekki heimilt. Menn urðu að búa í landinu til að geta tekið þátt og sagt hvaða afstöðu þeir höfðu. Ég er ekki þar með að segja að það sé mín afstaða. Annaðhvort viljum við tryggja að ríkisborgari geti alltaf tekið þátt og komið sér inn á kjörskrá eða við teljum að skilyrði eigi að vera það að fólk sé einfaldlega búsett á Íslandi og með lögheimili til þess að geta tekið þátt í kosningum til Alþingis.