147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki meiningin að vekja hér upp miklar umræður með þessari sakleysislegu ræðu minni. Ég hélt að ég væri að tala um mál sem enginn ágreiningur væri um. En mér er ljúft og skylt að svara andsvörum í þessum efnum.

Þetta snýr að þeim sem búið hafa erlendis lengur en átta ár. Síðast þegar þessu er breytt er það gert þannig að lína er dregin í sandinn og framkvæmdin er sú að menn haldast inni á kjörskrá og tilheyra því kjördæmi þar sem þeir áttu síðast lögheimili þangað til átta ár eru liðin, þá hverfa þeir út af henni. Í stað þess ákvæðis sem áður var, að menn gátu kært sig inn á kjörskrá, eins og kallað var, með því að senda bréf um það til þeirra sem voru með kjörskrána á viðkomandi stað að þeir óskuðu eftir að kæra sig inn á hana — sem var allmikið ferli — var útbúið þetta tiltölulega einfalda fyrirkomulag, að menn gætu fyllt út eyðublað, sent það inn til Þjóðskrár og hún færði menn þá inn á kjörskrána. Gallinn er sá að þetta er bundið við 1. desember ár hvert. Þá eru menn að sjálfsögðu með í huga reglulegar alþingiskosningar að vori. Þetta er það sem upp kemur þegar kosningar eru boðaðar óvænt og menn hafa þar af leiðandi ekkert endilega verið uppteknir af því að senda inn slíka tilkynningu fyrr en í hönd fara reglulegar kosningar. Nú er þetta að gerast í þriðja sinn.

Ég held að besti varanlegi frágangurinn á þessu sé að taka út þessa dagsetningu, setja í staðinn það að Þjóðskrá fái alltaf lágmarkstíma fyrir kosningar til að færa umsóknir inn. Einhvern veginn þannig að allar umsóknir sem borist hafa þremur vikum fyrir kjördag skuli teknar og meðhöndlaðar. Þá þyrfti ekkert að eiga við þetta á hverju ári. (Forseti hringir.)

Frumvarpið er hins vegar fullnægjandi lausn á málinu núna þannig að ég er algerlega sáttur við að það sé samþykkt.