147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði að sjálfsögðu ekkert á móti því, ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur sig hafa tíma til þess og aðstæður leyfa hér í dag, að menn færu yfir það hvort þeir séu tilbúnir að breyta þessu varanlega. Ég held að það sé tiltölulega einfalt. En ég vil samt ekki á nokkurn hátt verða til þess að það komist neinn sandur í legurnar varðandi það að þetta mál verði klárað. Það er í mínum huga mjög mikilvægt. Ég veit að beðið er eftir þessu.

Ég vil svo segja að mér finnst sjálfsagt að við greiðum fyrir því að Íslendingar, íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis, sem vilja halda þessum tengslum við landið, geti það. Það finnst mér eðlilegt. Þannig er það víðast hvar hjá öðrum þjóðum. Við sáum til dæmis allan þann fjölda Tyrkja sem gátu kosið í kosningunum þar, þótt ég ætli ekki að fara að blanda þeim málum saman að öðru leyti. Það finnst mér allt í lagi.

Að lokum minni ég svo aftur á það að auðvitað hefur staðið til að endurskoða þó nokkur tæknileg ákvæði kosningalaga. (Forseti hringir.) Um sinn hefur ekki náðst tími til þess vegna þess að kosningar hefur borið að svo óvænt. Þetta ætti auðvitað algerlega heima í slíkri endurskoðun.