147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki tilefni til mikilla svara. Ég þakka bara hv. þingmanni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fyrir undirtektirnar. Þetta er þá eitthvað til að hafa í huga. Auðvitað gæti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem best litið á þessi mál á næsta kjörtímabili. Svo er spurning hvort við eigum að búast við því að hér sé að myndast regla frekar en undantekning, að kosið sé árlega á haustin. Ég veit nú ekki hvort menn óska sér þess almennt. Ekki geri ég það. Það er ekki endilega það sem við þurfum upp á stöðugleikann. En út af fyrir sig er ég alveg til ef því er að skipta og ég er náttúrlega rétt að byrja í þessu eins og kunnugt er. Maður tekur þann slag ef hann er í boði.

En ég vil segja að það er mjög brýnt að endurskoðun kosningalaganna komist í gegn. Það hefði verið gott að ná því núna fyrir þessar kosningar eða sveitarstjórnarkosningar að vori. En ég held að menn eigi þá að einsetja sér þegar mögulega gætu verið þrjú og hálft ár í næstu almennar kosningar eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor að ljúka því verki að endurskoða kosningalögin. Það eru þar allmörg tæknileg ákvæði sem til dæmis landskjörstjórn hefur ítrekað bent Alþingi á að þurfi að laga. Það er eiginlega ekki vansalaust að menn skuli ekki hafa haft sig í gegnum það.