147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Málið er frekar einfalt en samt það flókið að sérstaka lagasetningu þarf til. Ég hef verið með frumvarp í smíðum til að reyna að einfalda þetta en því miður náðist ekki að klára það svona í byrjun þings. Ég bjóst við að geta lagt það fram á þinginu en ýmislegt annað gerðist. Málið snerist einfaldlega um að menn detta ekkert af kjörskrá. Það er hægt að viðhalda þessu á miklu einfaldari hátt; það þarf ekkert að vera með þetta kerfi í kringum það að fólk sé að detta út og kæra sig inn á kjörskrá fram og til baka. Af hverju getur fólk ekki haldið áfram að kjósa þótt það hafi búið erlendis í meira en átta ár, fyrst sá möguleiki er til staðar að viðhalda kjörskrárgengi sínu áfram?

Ég hef líka fengið skilaboð hvað þetta ferli allt varðar. Nú er það ekki endilega auðvelt að kæra sig inn á kjörskrá. Ég var að grúska í þessu á vefnum og það að grafa sig að einhverju eyðublaði og því um líkt; það mætti alveg vera auðveldara. Hins vegar mætti vera enn auðveldara að greiða atkvæði í kosningunum. Nú hefur maður fengið skilaboð frá nemendum erlendis sem hafa ekki efni á að ferðast til næsta ræðismanns eða sendiráðs til að greiða atkvæði sitt. Það eru jafnvel bara smápeningar; námsmenn hafa ekki mikinn pening á milli handanna. Þar erum við að missa af lýðræðisþátttöku sem er okkur mjög mikilvæg.

Þar væri hægt að gera einhverjar ráðstafanir, t.d. að hægt væri að sækja um að fá rafrænan atkvæðaseðil í undantekningartilvikum, ef þú getur sýnt fram á það, alveg eins og að kæra sig inn á kjörskrá. Sá kostnaður finnst mér réttlætanlegri en að vera alltaf að meðhöndla þetta kerfi um að viðhalda kjörskrá sem stækkar og minnkar eftir árafjölda erlendis; að þú getir að minnsta kosti notað atkvæðisrétt þinn sama hvar þú býrð í heiminum.

Gera þyrfti miklu fleiri breytingar á kosningalögum. Á síðasta kjörtímabili — held ég, þau eru orðin svo mörg að ég veit ekki alveg hvort það er síðasta eða þarsíðasta — skilaði nefnd viðamiklum breytingum á kosningalögum sem ekkert hefur verið farið yfir. Þetta er eitthvað sem við eigum ekki að þurfa að þola. Eins og ég hef bent á nokkrum sinnum á nýliðnu þingi er mjög brýnt að jafna atkvæðisréttinn, þannig að við þurfum ekki að þola það að flokkar með mjög nauman meiri hluta geti verið með mjög sterkan meiri hluta á þingi. Ef þú ert með mjög nauman meiri hluta atkvæða áttu líka að vera með mjög nauman meiri hluta þingsæta. Á þessu þingi, þessu kjörtímabili, var mjög naumur ríkisstjórnarmeirihluti með minni hluta greiddra atkvæða. Það má einfaldlega ekki gerast; það er lýðræðislega bilað kerfi.

Ég vænti þess að fólk taki það alvarlega í framtíðinni að huga að þessu kosningakerfi sem er grunnurinn að lýðræðinu okkar. Ef það er bilað er lýðræðið bilað líka. Ég vil minna á að það er ekki bara þetta vandamál, þ.e. að ef kosningar ber óvænt að þá þurfi að redda einhverjum dagsetningum, heldur mun stærri vandamál sem við þurfum að huga að. Ég tek undir þau orð fyrri ræðumanna að við þurfum að taka þær áskoranir alvarlega.