147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

kosningar til Alþingis.

112. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að blanda mér örlítið í umræðuna. Ég held að fullt tilefni sé til, eins og hér hefur svo sem komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að taka til skoðunar margt sem tengist kosningum og atkvæðagreiðslu og hvernig menn geta greitt atkvæði, og sjálfsagt að gera það. Við erum með þetta að stofni til eftir mjög gömlu kerfi. Nútíminn á að halda innreið sína í þessa þætti eins og aðra. Auðvitað þarf að búa þannig um hnútana að allt geti farið rétt fram og enginn vafi sé á að kerfið virki og allt það. Við þekkjum þá umræðu. Ég tek undir að ég held að það væri verðugt verkefni á komandi þingi að fara vel yfir þetta. Svo vil ég líka taka undir með þingmanninum að ég held að jöfnun atkvæðisréttar sé eitt af því brýnasta sem við þurfum að taka okkur fyrir hendur. Það ástand sem við búum við er orðið löngu tímabært að bæta úr. Ég ætlaði bara að koma þessu rétt á framfæri, ég ætlast ekki til sérstakra viðbragða.