147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[16:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað sem nefndarmaður í fjárlaganefnd og skoða hér skjal sem fylgir með frumvarpinu um kostnaðarmat, sem á að fylgja öllum frumvörpum og voðalega þægilegt. Þar er tafla sem segir: Ef fjölgun umsækjanda verður 500 manns þá hækka útgjöld til þessa málaflokks um tæpa 1,5 milljarða. Ef það verður 1 þúsund manna fjölgun þá verða 4 milljarðar í útgjaldaaukningu, ef það verða tvö þúsund manns þá verða það 13,5 milljarðar.

Mig langar til að vísa þessari áætlun um útgjaldaaukningu til baka, hún er gjörsamlega fáránleg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það getur ekki verið að þegar hælisleitendum fjölgar hækki kostnaður á hvern hælisleitanda, það getur ekki verið. Mig langar til að athuga hvort nefndin hafi ekki gert athugasemdir við þetta kostnaðarmat og fái nýtt kostnaðarmat sem hefur einhverja tengingu við raunveruleikann, því að að sjálfsögðu myndi maður nýta þennan pening til að bæta kerfið sem afgreiðir þessar umsóknir á sambærilegum tíma og er gert núna og jafnvel til þess að betrumbæta núverandi kerfi í staðinn fyrir að fara út í alla þessa bið.

Til að hafa það aðeins á hreinu kom fram í umræðu í nefndinni að langmest af þessum kostnaði fer til sveitarfélaga, varðandi leigu og aðbúnað hælisleitenda í húsnæði. Sumir pæla kannski í því hvert allur þessi peningur fer, þá er það þangað.