147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

0tlendingar.

113. mál
[16:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði nú bara vegna þess að það er greinilegt að þetta frumvarp nær bara til tiltekinna barna. Ég vek athygli á því að á þessu ári hefur um 100 börnum verið vísað hér úr landi eftir efnislega meðferð og a.m.k. meðferð lögum samkvæmt. Bara á síðastliðnum fjórum vikum hefur 10 börnum verið vikið úr landi. Á morgun munu börn sækja hér um um hæli, daginn eftir morgundaginn og daginn eftir þann dag munu koma hingað börn sem munu óska eftir dvalarleyfi af ýmsum ástæðum. Þetta frumvarp nær ekki til þeirra, ef ég skil það rétt svo ég velti því fyrir mér hvaða nákvæmlega börn þetta eru og í hvaða tilgangi nákvæmlega þetta frumvarp er lagt fram.

Hér komu fram vangaveltur varðandi kostnaðinn í andsvari hv. þingmanns við fyrirspurn annars hv. þingmanns. Hafa frumvarpshöfundar velt því fyrir sér hvort kostnaðarmat sé ekki hluti af meðferð málsins og mati á áhrifum af þessu frumvarpi? En ekki síður, og það er það sem mig langar að spyrja um: Hefur verið gert einhvers konar mat á því hvaða afleiðingar svona frumvarp hefur t.d. á fjölda umsókna í framhaldinu ef frumvarpið nær fram að ganga? Hafa frumvarpshöfundar gert einhverja tilraun til þess að leggja raunhæft mat á hvaða afleiðingar það hefði fyrir fjölda umsókna hér og þar af leiðandi í framhaldinu afgreiðslutíma á hælisumsóknum og aðstöðu hér á landi til þess að taka á móti þessu fólki og þjónusta það á meðan það dvelur hér til lengri eða skemmri tíma?