147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að fjalla aðeins um löggjafarviljann eins og hann blasti við landsmönnum öllum þegar lög um útlendinga voru samþykkt á síðasta kjörtímabili. Hér er því haldið fram að einhverjar setningar hafi fallið úr frumvarpinu við meðferð þingsins. (Gripið fram í: Það var grein …) Það kann að vera, og að því hafi verið breytt. Frumvarpinu var svo sannarlega breytt frá því það kom hingað í þingið. Það tók verulegum breytingum í meðförum þingsins. Það heitir hins vegar á þingmáli þingleg meðferð. Niðurstaða þeirrar þinglegu meðferðar er sá lagatexti sem við stöndum frammi fyrir í dag með núgildandi útlendingalögum og greinargerð sem liggur reyndar fyrir, þar sem fjallað er um, svo ég taki nú dæmi úr greinargerðinni, 36. gr., sem er hér til umfjöllunar, tiltekin dæmi þegar svokölluð Dyflinnarmál yrðu tekin til efnismeðferðar. Það lá alveg fyrir að þingið hafði engan vilja til þess að öll hin svokölluðu Dyflinnarmál fengju efnismeðferð. Hefði svo verið hefði það kallað á miklu meiri umræðu en raun bar vitni um þetta atriði. Svo sannarlega, ef það er ætlun löggjafans í dag að færa öll Dyflinnarmál til efnismeðferðar, kallar það á verulega mikla umræðu og þinglega meðferð og ég tel að þinginu geti ekki verið stætt á öðru en að sinna þeirri skyldu að taka það til meðferðar. Enda er það svo að þetta frumvarp færir það ekki í þennan texta sem hv. þingmaður telur að hafi fallið niður í meðförum þingsins fyrir ári síðan. Þetta frumvarp miðar ekkert að því að gera þetta að almennri reglu heldur þvert á móti, það miðar að því að gera þetta að sértækri reglu í þágu tiltekinna einstaklinga (Forseti hringir.) sem bíða hér eftir meðferð, afgreiðslu sinna mála hjá stjórnsýslunni.

Ég verð að fá að svara spurningunni í seinna andsvari.