147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að hlusta á þessa ræðu frá sitjandi starfsstjórnardómsmálaráðherra og viðhorf hennar til barna á flótta. Það er með ólíkindum að hlusta á þetta. Manni verður bara hreinlega illt í hjartanu. Sem betur fer verður mjög ólíklegt að skipað verði eins í ráðuneyti eftir næstu kosningar. Ég verð bara að segja það. Ég vona svo sannarlega að tekið verði á þessum málum. Hér erum við bara með bráðabirgðaákvæði í raun og veru sem mun falla úr gildi. Ég vona svo sannarlega að tekið verði almennilega á þessum málum, þannig að við horfum ekki nánast í hverri einustu viku upp á harmsögur um börn á flótta þar sem ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra. Það er það sem þetta snýst um, börn á flótta. Við eigum að líta til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tryggja þeim skjól (Forseti hringir.) ef þau óska eftir því.