147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, okkur greinir á um hversu viðamiklar þessar breytingar eru. Ég tel þær vera smávægilegar. Það hefur ítrekað verið fjallað um þessa útgáfu af þessu breytingarákvæði stjórnarskrárinnar á fyrri þingum. Það liggur fyrir fullt af umsögnum um þetta ákvæði. Og eins og kom fram í atkvæðagreiðslum áðan og umsögnum voru Píratar alveg tilbúnir til að vinna í áttina að málamiðlun. Við fengum hins vegar ekki að leggja fram annað frumvarp sem væri nær því ákvæði sem rann út af einhverjum undarlegum ástæðum. En spurningin var hvort þingið væri tilbúið til að nýta tímann og tækifærið til að klára þetta smávægilega skref sem hefur samt það mikil áhrif að strax væri hægt að fara að vinna að breytingum á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili, t.d. að laga það sem út af stendur varðandi uppreist æru í stjórnarskránni.