147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er augljóst af máli sitjandi dómsmálaráðherra að henni finnst samúð þingmanna með börnum sem vísa átti út í óvissuna og viðbrögð þeirra við þeirri óréttlátu meðferð sem þau hafa fengið hreinasta svívirða. Sömuleiðis finnst henni ómögulegt að ákall almennings eftir réttlæti í þessum málum hafi orðið til þess að formenn flokka fundu hér tímabundna lausn rétt í þinglokin og fór hún mikinn um ófagleg vinnubrögð flutningsmanna sem séu í ofanálag ekki í takti við raunveruleika ráðherrans.

Loks varpaði hún fram fullkomlega ábyrgðarlaust einhverjum fabúleringum um gríðarlegan kostnaðarauka sem gæti orðið af völdum þessa frumvarps. Af þeim sökum þykir mér rétt að taka fram strax í upphafi að þingmenn sem og aðrir skuli varast þann hræðsluáróður sem ég óttaðist einmitt að yrði allsráðandi við þessa umræðu. Hvers vegna? Vegna minnisblaða sem hér hafa gengið þingmanna á milli um hættuna á stórkostlegri fjölgun flóttamanna, gríðarlegum og rakalausum og stjarnfræðilegum kostnaðarauka við þessa fjölgun sem og eyðileggjandi og auknu álagi á starfsmenn Útlendingastofnunar vegna frumvarpsins.

Virðulegir þingmenn. Þessi rökstuðningur er þvættingur og einmitt ekkert nema hræðsluáróður. Það liggur alveg skýrt fyrir að með þessu er ekki verið að gera annað en að efla rétt þeirra sem nú þegar hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Að efla rétt þeirra til efnislegrar meðferðar. Það nær ekki yfir þá sem koma hér á eftir. Því er allt hjal og tal um að hingað komi straumur flóttamanna vegna orðróms um lint regluverk á Íslandi einfaldlega helber þvættingur og hræðsluáróður.

Hér er hins vegar um að ræða enn einn plástur sem skilar vonandi þó þeirri góðu niðurstöðu að börn á flótta fái hér skjól. Þetta frumvarp er eftir sem áður engin fullvissa fyrir því, enda segir það bara til um rétt þeirra barna sem hafa verið hingað til hvað mest í umræðunni til að fá mál sín í efnismeðferð hjá Útlendingastofnun, stofnun sem nú þegar hefur sýnt svo ekki verður um villst að hún er til í að líta fram hjá barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, fram hjá flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu í viðleitni sinni til að vísa sem flestum sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd úr landi.

Mér finnst raunar sorglegt að við óttumst að taka á okkur sanngjarnan skerf gagnvart samfélagi þjóða þegar kemur að móttöku flóttafólks. Ísland tekur við örfáum einstaklingum í samanburði við önnur lönd og við misnotum Dyflinnarreglugerðina síendurtekið til að skjóta okkur undan okkar sjálfsögðu ábyrgð í þessum efnum.

Ísland er aðili að NATO, frú forseti, sem ber gríðarlega ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin gagnvart þeim ótrúlega fjölda fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka og ofsókna. En okkur dettur ekki í hug að taka ábyrgð á þætti okkar í því með því að semja lög sem taka við því fólki sem hefur beðið óafturkræfan harm vegna aðgerða þessa stærsta hernaðarbandalags heimsins á undanförnum árum. Okkur dettur það ekki í hug. Þess í stað láta sumir þingmenn það eftir sér að kvarta yfir að um þúsund sálir hafi hingað leitað árlega og beðið um skjól. Þessi tala er einfaldlega brandari þegar hún er sett í alþjóðlegt samhengi.

Þetta frumvarp er í raun skammarlegt. Skammarlegt fyrir hvað það er nánasarlegt, hvað það nær yfir fá börn á flótta, fyrir hvað það þurfti að berjast hart í lokuðum herbergjum til að fá hið minnsta að setja þetta sjálfsagða mál á dagskrá. En hér er það á dagskrá og hér ræðum við þessa lágmarks, bráðabirgða, smávægilegu réttarbót. Og við getum ekki annað en samþykkt þetta mál viljum við ekki hljóta dóm sögunnar fyrir að hafa nákvæmlega enga samvisku.