147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:49]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Þegar það er þjóðhátíð í Eyjum og við getum ekki flutt fólk til Eyja af því að Samgöngustofa segir eitthvað tiltekið þá er því bara kippt í liðinn með því að skilgreina nýtt siglingasvæði sem er akkúrat þannig að skipið komist með fólk á þjóðhátíð. Það þykir allt í lagi. Ef menn eru ósáttir við að einhver vegur getur ekki legið á þann hátt sem þeir vilja þá leggja þeir fram frumvarp um að hann geti legið á þann tiltekna hátt. Það sér enginn í fljótu bragði neitt að því að þarna sé verið að opna pandórubox sem verður ekki lokað aftur. En þegar kemur að því að senda á börn úr landi og hluti fólks er ekki ánægður með það, þá má ekki grípa inn í með lagasetningu eða einhvers konar geðþóttavaldi á nokkurn hátt. Það er ekki hægt.

Auðvitað er það þannig að öll löggjöf sem við setjum er alltaf miðuð við aðstæður og hugsanlega þær tilfinningar sem þær skapa. Það er ekki bara þannig að menn bregðist við fréttum með því að setja lög varðandi þær tilteknu fréttir. Menn bregðast við fréttum og breyta lögum til þess að réttarástandið í landinu endurspegli betur siðferðisvitund þeirra. Það var það sem gerðist í þessu máli og það eru fleiri dæmi þar um.

Hér tala menn eins og fólk rjúki upp til handa og fóta bara til þess að bregðast við einhverjum fallegum myndum af börnum. En hvað var fyrra málið sem við vorum að ræða í dag? Við vorum að ræða uppreist æru. Það er mál sem hefur verið fréttamál. Það lá svo á að koma því í gegn að við erum að leggja fram hálft frumvarp í rauninni, [Hlátur í þingsal.] hálft frumvarp af því að seinni hluti frumvarpsins er ekki tilbúinn. Það kemur bara seinna. Það er ekki tiltökumál að bregðast við þessu eða öllu öðru sem við höfum brugðist við með þessum hætti. En þegar kemur að því að verja börn, þá setjum við fingurinn niður. Þá verður að segja stopp, hingað og ekki lengra.

Mig langar aðeins að fjalla um tilurð frumvarpsins sem hér er til umræðu. Eins og oft áður þegar einhverjum hópi fólks, hvort sem það eru þingmenn eða almenningur, líkar ekki hvernig lög í landinu eru þá koma fram ýmsar tillögur um hvernig eigi að bregðast við því. Það kom ein tillaga um að veita fólkinu sem um ræðir ríkisborgararétt. Það komu mörg frumvörp fram til að bregðast við þessu efni. Eitt þeirra var frumvarp sem þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ásamt nokkrum Pírötum stóðu að þar sem farið hefði verið heildrænt yfir umhverfi þessa mála og útlendingalög skoðuð með hliðsjón af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var með ágætisfrumvarp sem sneri að því að færa aftur inn litla setningu sem var tekin út á vinnslutíma útlendingalaganna á síðasta þingi þar sem var áréttað ákvæði sem átti að gilda um fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Síðan var ákveðið að reyna, eða það hélt ég, að bræða saman öll þessi ólíku frumvörp til þess að menn gætu komið sér saman um eitthvað.

Það verður auðvitað að segja það hæstv. starfandi dómsmálaráðherra til hróss að hún hefur aldrei legið á skoðun sinni í þessu máli, hún hefur kannski aldrei verið sérstaklega lausnamiðuð þegar kom að því að leysa úr þessu tiltekna viðfangsefni. Hún vill standa vörð um lagaumhverfið eins og það er, en það voru aðrir þingmenn, þingmenn í öðrum flokkum en líka í hennar flokki, sem voru að vinna að þessari vinnu, að mér fannst, til að komast að sameiginlegri niðurstöðu, ekki sem flugur á vegg eða sem áheyrendur heldur hélt ég að þeir væru að vinna að þessu máli til þess að geta komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þannig mat ég það alla vega þegar ég mætti á fundi ásamt þingflokksformanni mínum og öðrum þingflokksformönnum og fulltrúum annarra flokka. Þar voru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og þar var hæstv. þingforseti sem stýrði þeim fundi. Ég ímyndaði mér að við værum þarna að vinna að því að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem við gætum öll sætt okkur við. Hér er svo sannarlega minnsti mögulegi samnefnari allra þeirra hugmynda sem settar voru á blað. En þrátt fyrir að þessi samnefnari sé afskaplega smár að mínu mati virðist hann ekki einu sinni duga til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti fallist á hann. Það veldur mér ákveðnum vonbrigðum og áhyggjum í ljósi þess að við erum að fara í kosningabaráttu.

Ég hef áhyggjur af því að þetta sé einhvers konar aðgreiningartæki. Ég vonaði að við gætum fallist á það að leysa úr þessu máli í sameiningu. Sú lausn sem hér er boðið upp á er ekki lausn sem mun tryggja það að íslenska ríkið virði barnasáttmálann eins og hefur verið bent á af mörgum aðilum að núverandi lög geri ekki að fullu, ekki núverandi framkvæmd. Það eru ekki bara einhverjir galgopar sem hafa fullyrt það. Það er ekki tekið á þeim kerfisbundna vanda sem virðist vera sá að ekki er nægilega mikið tillit tekið til réttinda barna í þessum málum. Nei, það er bara verið að leysa úr einhverjum litlum afmörkuðum þætti. Þetta er mjög tímabundið ákvæði. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að þeir sem ég hélt að hefðu farið um borð í þessa vinnu til að taka fullan þátt í henni geti ekki einu sinni fallist á þessa mjög svo hófsömu málamiðlun sem við komumst að. Það er undarleg samningatækni, finnst mér, að vilja miðla málum en geta síðan ekki einu sinni fallist á málamiðlunina sjálfa.

Ég játa það að ég hafði ýmsar væntingar um vinnu við útlendingalög á kjörtímabilinu. Margar þeirra sneru ekki beinlínis að þeim málum sem lúta að hælisleitendum eða þeim málum sem eru svo oft í fréttum. Ég held að það þurfi að gera mjög margt til þess að Ísland verði vingjarnlegt land gagnvart öllum þeim sem hingað vilja koma af hvaða ástæðu sem það kann að vera, ekki eingöngu í neyð heldur bara vegna þess að þeir hafa þá ástríðu að flytja til Íslands. Það voru ýmsir hlutir sem ég hafði hugsað mér að setja fram. Ég vona að ég fái tækifæri til þess að halda áfram með þá vinnu. Eitt af því er t.d. að auka rétt barna á þann hátt að börn geti ávallt fylgt foreldrum sínum sem hafa löglegt dvalarleyfi hér. Þannig er það ekki í dag. Börn námsmanna geta ekki auðveldlega fylgt foreldrum sínum til landsins, ekki ef þau eru í BS-námi. Börn starfsfólks sem starfar hér tímabundið geta það ekki o.s.frv. Þetta er eitthvað sem ég held að við ættum að laga.

Annað mál eru réttindi sérfræðinga. Það var farin af stað ákveðin vinna við að tryggja það að hingað gæti fólk komið frá öllum löndum heims með sérfræðileyfi, að þau sérfræðileyfi veittu mönnum meiri rétt. Það mál lá á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þar sem vonast var eftir að félags- og jafnréttismálaráðherra gæti lagt fram slíkt frumvarp næsta vor, en því miður verður það ekki raunin að sinni.

Í þriðja lagi langar mig að nefna eitt sem ég held að sé tækifæri sem við höfum ekki nýtt nægilega vel, sérstaklega þegar kemur að öllum þeim löndum sem menn tala um að fólk komi oft frá og nefna það stundum að það geri slíkt án sérstaks lögmæts tilgangs. Það eru svokallaðir samningar, æskulýðssamningar. Það er heimild í útlendingalögum til að gera samninga við önnur ríki þar sem fólk á aldrinum 18–26 ára gæti komið til landsins, kynnst hér menningu og þjóð, landi og þjóð. Eftir því sem ég best veit hefur Ísland ekki gert neinn slíkan samning. Þarna er sannarlega heimild fyrir utanríkisráðherra til að vinna með og líta sérstaklega til þessara jaðarsvæða EES-samstarfsins þaðan sem mikið af þessu fólkið kemur. En því miður hefur vinnan á þessu kjörtímabili oftar en ekki snúist um að herða ýmsar reglur, fylla upp í ýmsar glufur til að koma í veg fyrir að of mikið af fólki komi hingað á fölskum forsendum, t.d. með breytingum á lögum um útlendinga, varðandi frestun réttaráhrifa o.s.frv.

Því miður finnst mér að allar þær herðingar sem menn koma á séu varanlegar, en mannúðin er oftar en ekki tímabundin.