147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:15]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum hér á dagskrá málaflokk sem er sérstaklega viðkvæmur. Hann er ekki bara viðkvæmur vegna þess að þeir sem eiga hér í hlut eru einstaklingar sem eru í viðkvæmri stöðu. Það er erfitt að ímynda sér að hægt sé að vera í verri stöðu en fjarri heimahögum í fullkominni neyð og eiga í raun og veru ekki endurkomu auðið vegna stríðs eða upplausnar í heimalandinu. Ég ætla bara að segja það hér í upphafi að ég hef fullan skilning á því að í umræðu um þessi mál séu miklar tilfinningar þar sem lögin sjálf, útlendingalögin, eru lýsandi fyrir það að við finnum til með þeim sem þurfa að leita skjóls alþjóðlegrar verndar fjarri heimahögunum. Það má segja að það sé eins konar kjarnaatriði í löggjöfinni.

Nú er það svo að því miður í okkar heimshluta, á jaðri Evrópska efnahagssvæðisins, hafa geisað stríð. Það hefur kallað yfir alla álfuna áður óþekktan þrýsting og viðfangsefni af stærðargráðu sem við höfum aldrei áður séð framan í. Þingmenn héðan af Alþingi hafa sótt heim flóttamannabúðir. Ríkisstjórnin hefur sett hærri fjárhæðir en nokkru sinni fyrr til þess að koma til aðstoðar. Við höfum tekið hingað heim það sem á tæknimálinu er kallað kvótaflóttamenn. Við höfum sem sagt opnað götuna hingað til Íslands fyrir fólk sem kemur beint úr flóttamannabúðum. Við höfum líka aukið við fjárveitingar beint til aðstoðar þar sem hægt er að koma til hjálpar og við höfum í gegnum utanríkisþjónustuna sent fleiri á vettvang í ýmis verkefni sem geta komið að gagni til þess að bæta lífsskilyrði og aðstæður. Svo höfum við hér á Íslandi þurft að bregðast við vegna þess að umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi hefur stórfjölgað. Við höfum þurft að bregðast við með því að efla getu okkar til þess að takast á við þau mál. Ég myndi leyfa mér að segja að við á Alþingi höfum líka þurft að vera fljót að læra, setja okkur inn í þennan málaflokk, að skilja betur við hvað er að fást. Af þeim sökum var á síðasta kjörtímabili talið nauðsynlegt að koma á þverpólitískri nefnd sem leidd var á þeim tíma af stjórnarandstöðunni, ef það er til eitthvað sem heitir stjórn og stjórnarandstaða í málaflokki eins og þessum. Úr því starfi öllu fæddust breytingar sem áttu að vera til þess fallnar og voru það að okkar allra mati að tryggja skjótari málsmeðferð, en í þessum málaflokki er fyrir mína parta alveg sjálfstætt mannréttindamál að við getum veitt skjót svör.

Við höfum upplifað svipaða þróun á Íslandi og hefur orðið í öðrum nágrannaríkjum, þ.e. það hefur verið vaxandi fjöldi umsókna á Íslandi ár frá ári. Það eru fleiri mál í ár en í fyrra, fleiri mál í fyrra en árið þar áður o.s.frv. Þetta hefur kallað yfir okkur ýmiss konar áskoranir. Þetta þekkja menn í þessum sal.

Nú er það svo að við á Íslandi getum ekki sett upp okkar eigið regluverk algjörlega óháð því sem á við í nágrannalöndunum. Við höfum þess vegna valið þá leið að þegar upp kemur sú spurning hvaða viðmið við eigum að leggja til grundvallar afgreiðslu á svona umsóknum að við höfum farið í alþjóðlegt samstarf um það. Það má alveg segja að á vissan hátt sé dálítið ómanneskjulegt að segja að það gildi ein regla fyrir alla og allir fyrir einn. En það er engu að síður þannig að við höfum átt í alþjóðlegu samstarfi um það hvernig eigi að taka á þessum málum og hvaða viðmið eigi að leggja til grundvallar, t.d. um ástandið í heimalandinu, þegar kemur að því hvort fallast beri á umsókn. Eftir þessu verklagi höfum við starfað allan tímann. Mér finnst að það hafi verið góð samstaða um það í þinginu.

Í þessu regluverki felst m.a. að að meginreglu til eru umsóknir afgreiddar þar sem viðkomandi hefur fyrst haft viðkomu í samstarfsríkjunum. Mjög stór hluti þeirra mála sem rata í opinbera umræðu á Íslandi og eru til umræðu hér á þinginu er einmitt af því tagi, þ.e. það er deilt um þá meginreglu að mál skuli afgreitt þar sem viðkomandi hefur fyrst haft viðkomu inn á svæðið.

Mér finnst það vera umhugsunarefni að það sé orðinn hluti umræðunnar á þingi að við viljum mögulega hverfa frá slíkum grundvallaratriðum í málsmeðferðinni. Mér finnst í því máli sem er hér til umræðu vera gefið undir fótinn með að við séum tilbúin til að taka þá grundvallarreglu til endurskoðunar og tryggja jafnvel að hér á landi eigi að fara fram hin eiginlega efnismeðferð þrátt fyrir að við séum aðilar að Dyflinnarsamkomulaginu og hingað til hafi verið miðað við að réttur viðkomandi sé tryggður með því alþjóðlega samstarfi sem við höfum átt hlutdeild að. Þetta finnst mér að þarfnist alveg sjálfstæðrar og sérstakrar skoðunar.

Mér hefur líka þótt hafa verið samhljómur um það á þinginu fram til þessa að þegar um jafn umfangsmikinn vanda er að ræða og hér er undir og þar sem menn vilja leysa málið eða nálgast, skulum við segja, þann vanda sem er undirliggjandi með samstilltum aðgerðum hafi verið skilningur á því að það gangi ekki að viðmiðin varðandi afgreiðslu einstakra mála séu mjög frábrugðin frá einu ríki til annars. Þetta er viðkvæm umræða vegna þess að hún snýst um milljónafjölda sem er á flótta og það er talið að einungis 10% þeirra sem raunverulega vilja komast frá heimahögunum séu á ferðinni. Hin 90% hafa ekki treyst sér enn þá af stað, hafa vegna ýmissa ástæðna ekki treyst sér í ferðalagið. En það er talið og það hefur verið almenn samstaða um það að augljóst sé að menn muni leita þangað sem fyrirstaðan er minnst ef reglurnar, hinar efnislegu reglur um málsmeðferðina, eru ólíkar því sem almennt gildir, í þessu tilviki í þeim löndum sem eiga aðild að Dyflinnarsamkomulaginu.

Þegar við veltum því upp í því máli sem rætt er á Alþingi í dag hvað það kunni að vera sem þarfnist endurskoðunar er ekki hægt að horfa fram hjá því að ekkert hefur komið fram í efnislegri umræðu um málið í dag sem segir að við séum að fara rangt að. Það er eingöngu verið að fara fram á að málin séu tekin til skoðunar. Upphaflega eru sett á dagskrá þessi málefni vegna tiltekinna afmarkaðra mála sem þó eru ekki enn fullafgreidd fyrir íslenskum stjórnvöldum í þeim skilningi að rætt hefur verið um að látið verði reyna á réttindi fyrir dómstólum.

Það sem ég er hér samandregið að taka fram er að ég held að það sé bráðnauðsynlegt fyrir okkur á þingi að reyna að viðhalda þeirri samstöðu sem hingað til hefur ríkt og lýsti sér í þeirri lagasetningu sem síðast var samþykkt á Alþingi, þvert á alla flokka, að við virðum ákveðin grundvallarviðmið í þessum málaflokki, viðmið sem taka mið af því alþjóðlega samstarfi sem við erum þátttakendur í og sömuleiðis að við hljótum að þurfa að samþykkja að þingið setur reglurnar og framkvæmdarvaldið fylgir reglunum. Það er grundvallaratriði.

Ef við hættum okkur inn á þá braut að taka til endurskoðunar einstaka niðurstöður í stjórnkerfinu þá held ég að við getum valdið slíkri óvissu um framkvæmd mála í þessum málaflokki að það geti leitt okkur í ógöngur.

Það er ekkert léttvægt að tala um þessi mál á einhverjum praktískum, mætti ég segja, framkvæmdalegum nótum um það hvernig skilvirkast sé að fást við öll þessi mál vegna þess að alveg eins og síðasti ræðumaður vék að eru raunverulegar manneskjur sem eiga í hlut. Í þessu tilviki, í þeim málum sem hafa síðast verið mest til umræðu, eru ekki bara manneskjur heldur börn og í mörgum tilvikum fylgdarlaus börn.

Sá veruleiki blasir við íslenskum stjórnvöldum í þessum málaflokki almennt að yfirgnæfandi meiri hluti umsókna um hæli á Íslandi stafar frá ríkjum þar sem við, Íslendingar, og öll okkar samstarfsríki höfum komist að þeirri niðurstöðu að ríki ekki hættuástand hjá. Þess vegna er það meginniðurstaðan í langflestum málum að ekki beri að fallast á umsókn um hæli. Engu að síður höfum við byggt upp nokkuð öfluga stjórnsýslu og við höfum varið miklum kröftum og fjármunum í að vanda málsmeðferðina í hverju einasta tilviki.

Það er líka augljóst í því alþjóðlega samstarfi sem við höfum tekið þátt í að það er því miður ótrúlegur fjöldi fólks sem býr við bág efnahagsleg kjör sem reynir að finna glufu á því mannúðarkerfi sem hælisleitendakerfið á Íslandi og í samstarfsríkjum okkar er. Lög og reglur, stjórnsýsla, móttaka fólks sem býr við neyð, sem er á flótta vegna þess að það getur ekki búið heima hjá sér, allt þetta kerfi hefur verið smíðað til þess að taka vel á móti þessu fólki. Ég hef engan þingmann hitt sem sér á eftir einni einustu krónu í þennan málaflokk til þess að gera vel við þá sem búa raunverulega við þannig aðstæður. Við erum stolt af því að geta tekið á móti slíku fólki. Við setjum mikinn kraft í samvinnu við sveitarfélög og alla aðra sem koma að þeim málaflokki til þess að hjálpa því fólki að setjast hér að og aðlagast vel samfélaginu, með nákvæmlega sama hætti og við bjóðum hingað til Íslands heim kvótaflóttafólki. En við verðum á sama tíma að sætta okkur við það að það er hlutfallslega ótrúlegur fjöldi umsókna um hæli á Íslandi sem er á kerfismálinu tilefnislaus. Þegar við leysum úr þeim vanda þá þurfum við að horfast í augu við það að ef við gerum það illa þá dregur það úr getu okkar til þess að taka almennilega á móti raunverulegum hælisleitendum sem eru í viðkvæmri stöðu, að hjálpa þeim að aðlagast samfélaginu og leysa hratt og örugglega úr þeirra málum. Þetta er hinn kaldi veruleiki í þessum málaflokki. Eftir því sem við ætlum að setja meiri fjármuni, setja fleira fólk á bak við það, að vinna úr málum sem ekki eiga raunverulega samkvæmt öllum samþykktum alþjóðlegum viðmiðum rétt á að koma til landsins sem hælisleitendur, eftir því sem við setjum meiri kraft í það, þeim mun meira drögum við úr getu okkar til þess að sinna almennilega þeim málum sem við erum sammála um að sinna.

Þetta eru nokkur almenn sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri í umræðunni vegna þess að ég finn að hún er mjög tilfinningadrifin. Mér finnst það mjög skiljanlegt. Lögin eru beinlínis sett vegna þess að við erum mannleg. Við finnum til með þessu fólki. Hin hliðin, hin röndin á þessum málaflokki, snýr að því að við getum (Forseti hringir.) gert þetta almennilega. Við búum þannig um þessi mál að við náum raunverulega þeim tilgangi sem lagt var af stað með.