147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:32]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég vísaði í samstöðu tók ég einmitt til þetta dæmi sem við höfum nýlega frá því að Alþingi samþykkti umbætur á löggjöfinni sem allir flokkar stóðu sameiginlega að. Þetta síðasta sem þingmaðurinn nefnir, sem er ríkisborgararétturinn sem ég sjálfur studdi, er dæmi um að okkur mistókst að taka með eðlilegum hætti á einstaka málum. Það er dæmi um það að hingað inn á löggjafarsamkomuna rati erindi beint úr stjórnkerfinu frá framkvæmdarvaldinu. Mér finnst það óeðlilegt. Ég held að það sé ekki gott fordæmi almennt séð að málum sem ekki hljóta samþykki í stjórnkerfinu, þ.e. hjá framkvæmdarvaldinu, sé skotið til þingsins til áframhaldandi meðferðar. Eða er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að við ættum að vera með einhvers konar áfrýjunarkerfi til þingsins í þessum málaflokki? Ég held að það sé ekki gott fordæmi. Það er enn þá mín skoðun.

Varðandi vegabréfsáritanir. Við höfum eitt nýlegt dæmi sem er að Evrópusambandsríkin hafa gert samninga við Georgíu um vegabréfslausar ferðir frá Georgíu inn í Evrópusambandið. Nú er það svo að á samstarfsvettvangi um þessi tilteknu mál hérna er það algerlega óumdeilt að áritunarleysið hefur verið misnotað fyrir hælisleitendur. Það er bara staðreynd og rætt var um það. Við verðum að geta rætt þetta af raunsæi. Þetta er dæmi um það að við þurfum að spyrja okkur hvort það kunni að þurfa að beita áfram vegabréfsáritunum til að sporna við offjölgun tilefnislausra umsókna. Með nákvæmlega sama hætti og Svíar, sem hafa haft frjálslyndustu reglurnar um þessi mál, nákvæmlega þessi mál, horfðust í augu við það að þeir réðu ekki við vandann og tóku upp (Forseti hringir.) áritanir á brúnni milli Danmerkur og Svíþjóðar. Danir hafa gert það sama. Við höfum ekki enn þá komist í þá stöðu, en við getum ekki litið (Forseti hringir.) undan ef slíkar aðstæður kynnu að skapast á Íslandi.