147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort mér lítist á þá tilhögun að þingið yrði að einhvers konar áfrýjunarverkfæri stjórnsýslunnar. Auðvitað líst mér ekkert á það enda er það ekki eðlileg stjórnsýsla. Hins vegar tel ég það vera hlutverk löggjafans að bregðast við þegar augljóst er að vilji löggjafans er ekki virtur sem skyldi í stjórnsýslunni, þegar augljóst er að gallar eru á löggjöfinni, þegar augljóst er að óréttlæti mun eiga sér stað ef löggjafinn bregst ekki við.

Hæstv. forsætisráðherra brást hins vegar ekki við spurningu minni um hvort það teljist ekki óvarlegt að spila með tilfinningar fólks að tala um að lögreglan fari aldrei óvopnuð í Víðines þar sem sumir hælisleitendur voru til húsa. Finnst hæstv. forsætisráðherra ekki óvarlegt að tala svona? Á hverju byggir hann þessar staðhæfingar sínar? Ég hef það eftir heimildum fólks sem sér um þennan málaflokk að það hafi engin tilvik verið um það, að lögreglan hafi gefið það út að hún fari ekki óvopnuð í Víðines, sem nota bene er búið að loka fyrir mörgum mánuðum. Ég skil því ekki alveg þetta dæmi og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaðan fékk hann þessa staðhæfingu? Er hann ekki að spila inn á ótta fólks þegar hann notar þetta í ræðu meðal sinna félagsmanna?