147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ágætu þingmenn. Við skulum ekki gleyma því að það var leyndarhyggja og samtrygging gamla Íslands sem varð þessari ríkisstjórn að falli. Það sem varð henni að falli kristallast í þeirri málsmeðferð sem við erum með núna.

Það sem varð þessari ríkisstjórn að falli, sem og öðrum ríkisstjórnum sem fallið hafa, er að Íslendingar hafa þroskað með sér mjög ríka siðferðiskennd og fundið henni farveg. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Það er gott veganesti fyrir þá sem eru núna að fara í atvinnuviðtal við þjóðina.

Við erum rétt að byrja að skoða hvað er undir ísjakanum. Það er svo mikil spilling. Maður hefur svo oft skynjað það í þingsal í öll þessi ár sem ég hef verið hérna, það er ótrúlegt að fylgjast með vinnubrögðunum. Það er hreinlega ótrúlegt og það er ömurlegt að fylgjast með vinnubrögðunum hérna. Það er ömurlegt.

Og það er ömurlegt að verða vitni að því að enn og aftur er verið að skítamixa. Þetta allt sem við erum með hérna, þessi örfáu mál eru plástrar. Við tökum ekki á rót vandans eftir öll þessi ár sem við höfum haft til að laga hlutina og læra af því sem var orsök og afleiðing hrunsins. Þetta hérna er bara enn ein birtingarmynd þess að við höfum ekkert lært.

Við höfum til dæmis verið með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem við erum með formann nefndar sem á að vera með eftirlit með framkvæmdarvaldinu og sá formaður er aðili framkvæmdarvalds. Og það finnst þingmönnum bara allt í lagi. Við verðum að gjöra svo vel og taka okkur tak hér í þingheimum. Ef við viljum að fólk sýni okkur einhverja virðingu verðum við að sýna vinnureglum og verklagi meiri virðingu en svo að leyfa því ítrekað að gerast að við vinnum með þessum hætti. Hvað höfum við langan tíma til að fara yfir þetta mál? Hversu langan tíma? Tvo klukkutíma í dag til að fá ráðuneytið til að fara yfir þessa lagabreytingu sem er í raun og veru aðeins hluti af lagabreytingu. Við þurfum því að skítamixa á þann hátt að láta lögin falla úr gildi til þess að það sé pressa á ráðuneytið til að klára öll hin lögin sem þarf að laga.

Þetta er skítamix, kæru vinir, kæru þingmenn. Og ef það verður ekki tekin einhver ákvörðun hjá ykkur, í flokkunum ykkar, um að laga þetta heldur þetta bara áfram og áfram og ríkisstjórnir munu falla og springa og falla og springa, eins og einhver sagði, ef þetta verður ekki lagað. Við lögum þetta ekki með því að halda áfram á þessari vegferð. Ég hef ekki séð neitt núna eftir að ríkisstjórnin féll eða á þessu kjörtímabili eða á því síðasta eða á kjörtímabilinu þar á undan sem gefur mér von um að þetta lagist. Ég hef ekki heyrt neina tala þannig að þeir ætli sér að laga þetta.

Nú eruð þið að fara í atvinnuviðtal við þjóðina. Hverju ætlið þið að lofa henni? Loforðum sem ekki er hægt að framfylgja? Ójá. Ég held að einlægasta og heiðarlegasta loforðið sé að tryggja að hægt verði að sinna lögbundnum skyldum á þessum vinnustað. Við erum þingmenn. Við berum mikla ábyrgð. Við vorum valin af þjóðinni til að gæta hagsmuna hennar. Okkur var treyst til að gæta hagsmuna almennings. Við höfum ítrekað brugðist því trausti. Ítrekað. Finnst ykkur það í lagi?

Mér finnst það ekki í lagi. Ég veit að mörgum ykkar finnst það ekki í lagi. En hvað ætlið þið að gera í því? Nú eruð þið að fara að tala við þjóðina og biðja hana um að treysta ykkur. Hvernig ætlið þið — og hugsið það vel — að auðsýna og verðskulda það traust? Það er ekki nóg bara að komast á þing. Hvað erum við að gera sem þingmenn? Hugsið um það. Af hverju viljum við vera þingmenn? Af hverju? Og af hverju eigum við að verðskulda það traust?

Ég veit ekki hversu oft ég hef haldið nákvæmlega sömu ræðuna hérna. Aftur og aftur og aftur. Ég skal segja ykkur að ein aðalástæðan fyrir því að ég gef ekki kost á mér aftur er að ég sé fram á að ég geti ekki breytt hlutunum hérna inni því að það er nákvæmlega enginn vilji til þess. Fólk lofar öllu fögru og svo er enginn vilji til að laga neitt.

Öllu fögru verður lofað. Hugsið aðeins út í hvernig þið ætlið að standa við það. Þegar flokkar komu með stefnuskrár sínar, sínar fallegu stefnuskrár, sem maður gæti nánast kosið allar, hvernig er hægt að framkvæma þær ef maður er ekki með meirihlutavilja? Og hvernig getum við breytt þessu meirihlutaræði? Hvernig er það, hvernig ætlið þið að sýna fram á að þið getið staðið við loforðin?

Þið getið það ekki. Það er ekki hægt. Það er ekki séns.

Þannig að aftur mun þjóðin þurfa að hlusta á alls konar loforð sem ekki er hægt að standa við. Aftur mun þjóðin verða fyrir miklum vonbrigðum. Aftur munuð þið halda áfram að samþykkja gölluð lög. Hver ber ábyrgð á því og öllu sem fer úrskeiðis við lagasetningu á Íslandi? Enginn. Ekki nokkur maður. Það er engin hefð fyrir því að bera neina ábyrgð á Íslandi. Ekki nein hefð.

Hvenær ætlum við að byrja að laga það? Hvenær á að laga það? Ég vona svo sannarlega að ég sjái eftir nokkur ár raunverulegar breytingar. Ég vona að allir sem sækjast eftir því að fá fólk til að treysta sér til að gæta hagsmuna þess, hagsmuna heildarinnar — það er það sem gleymist oft því að hér erum við aðallega að gæta sérhagsmuna. Ég vona að eftir nokkur ár sjái ég raunverulegar breytingar. Ég hef hitt fullt af þingmönnum sem vilja láta gott af sér leiða, en þeir festast í einhverjum furðulegum viðjum. Sumar af þessum viðjum eru viðjar hefðarinnar. Ef við viljum breytingar þurfum við stundum að vera óþægileg. Það er bara þannig. Það er ekki vinsælt en við þurfum stundum að vera óþægileg líka við fólkið sem við erum að vinna með, líka við samflokksmenn okkar. Við erum hér ekki sem hjörð. Við sækjumst eftir trausti og við kvittum upp á drengskapareiðinn við stjórnarskrána.

Ég hef allt of oft séð fólk svíkja þann eið og tala svo hér háheilagt yfir að ekki sé hægt að breyta stjórnarskránni pínulítið þannig að þjóðin geti tekið þátt.

Ég hef nánast í hverri einustu atkvæðagreiðslu við stór mál orðið vitni að því að fólk hefur svikið drengskapareiðinn og finnst það bara allt í lagi.

Það er kominn tími til að breyta þessu. Ég sem kjósandi — því að ég er að verða almennur kjósandi — ætla að fylgjast mjög vel með. Ég ætla að sjá hverjir það eru sem lofa einhverju raunhæfu. Það er löngu tímabært að þið sýnið þjóðinni þá virðingu að gæta að hag heildarinnar og hætta að skítamixa á Alþingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)