147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Það fór þá aldrei svo hérna rétt fyrir þinglok að ekki næðist samstaða um mikilvægt mál á Alþingi. Ég fagna því að samstaða hefur verið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um þetta mál og einnig um þá breytingu sem nefndin leggur til á þessu frumvarpi.

Ég hóf endurskoðun á fyrirkomulagi uppreistar æru í maí síðastliðnum. Menn þekkja þá umræðu sem hefur orðið í kjölfarið. Ég var með á þingmálaskrá sem kynnt var í haust tillögu til Alþingis um heildarendurskoðun á þessu máli. Ég játa það að mér hefði þótt meiri bragur að því og æskilegra ef það hefði náð fram að ganga, þ.e. ekki bara þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar heldur einnig þær lagabreytingar sem ég hef reifað að þurfi nauðsynlega að fara í ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þetta segi ég í ljósi þeirrar niðurstöðu sem ég komst að í sumar um heppilegustu leiðina að fara við endurskoðun á þessu fyrirkomulagi öllu. Ég hef líka nefnt að það hefði verið hægt að fara ýmsar aðrar leiðir, en að skoðuðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri eðlilegast að afnema alfarið heimildina til uppreistar æru í lögum en um leið að gera þessar nauðsynlegu breytingar.

Ég fagna því í sjálfu sér auðvitað að það kom fram mikill vilji til þess að afgreiða þetta atriði, taka þetta nauðsynlega kannski fyrra skref að þessu sinni. Ég hafði einnig efasemdir um að skilja málið eftir eingöngu með ádrætti eða fyrirmælum í greinargerð um áframhald málsins. Að því leyti fagna ég því að hér er bætt við þeirri grein að þessi lög muni falla úr gildi 1. janúar árið 2019 og verði ekkert annað gert fram að þeim tíma stöndum við frammi fyrir því fyrirkomulagi sem við þekkjum í dag um uppreist æru. Það er því mikilvægt að þessi vinna fari fram.

Ég vil að það komi fram hér að ég hef óskað eftir því í dómsmálaráðuneytinu að sú vinna sem þegar er hafin við endurskoðun á allri þeirri löggjöf sem kveður á um óflekkað mannorð haldi áfram og ekkert gefið eftir í þeim efnum þannig að fyrir nýju þingi liggi vonandi einhver vinna sem hægt er að byggja á í framhaldinu. Jafnvel þótt þessi tímasetning, 1. janúar 2019, sé auðvitað rúmur tími þá hvet ég til þess, ef það mættu verða skilaboð mín til nýs þings, að menn dvelji ekki við þá dagsetningu og láti ekki tíma fara til spillis. Sú vinna sem fram undan er er að mörgu leyti ekki einföld heldur kallar á mikla og djúpa umræðu um ekki bara endurheimt borgaralegu réttinda, heldur einnig líka mikilvægu umræðu sem kæmi inn í það sem er almenn umræða um refsistefnu hér á landi og hvaða leiðir menn vilja fara í þeim efnum. Þetta er auðvitað nátengt, endurheimt borgaralegra réttinda tengist líka refsistefnu. Það er fráleitt að gera ráð fyrir öðru en að löggjafinn, næsta þing, gefi sér góðan tíma í þetta og endurskoðunin öll fái sómasamlega þinglega meðferð.