147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[23:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur alveg fyrir að ég stóð frammi fyrir því verkefni í dómsmálaráðuneytinu að fyrir mig var lögð umsókn um uppreist æru á vormánuðum. Ég tók þá ákvörðun í maí að rita ekki undir hana, þvert gegn ráðleggingum eða ráðum, tilmælum sérfræðingum þar að lútandi með vísan til stjórnsýsluréttar. Það er bara staðreynd sem liggur fyrir í þessu máli. Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu eftir nokkra skoðun í maí sl. að til lengri tíma litið færi betur á því að löggjafinn sjálfur kæmi að breyttri framkvæmd í þessu efni, að það væri ekki háð geðþótta ráðherra á hverjum tíma að breyta framkvæmdinni. Ég sá það líka í hendi mér að það gæti ekki verið hlutverk ráðherra að meta hvaða brotamenn fengju uppreist æru eða ekki. Að því leyti lá það alveg skýrt fyrir í mínum huga að löggjafinn þyrfti að koma þarna að.

Hvað varðar fórnarlömb eða kannski frekar aðstandendur brotaþola sem verið hafa til umræðu í sumar, þá liggur það líka fyrir að sú umræða um þennan málaflokk í sumar hefur leitt til þess t.d. að það frumvarp sem hér er til umræðu er til umræðu í dag í því formi sem það er. Við tókum ákvörðun um að bíða ekki eftir heildarendurskoðun heldur taka þetta nauðsynlega fyrra skref einmitt í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í hér í haust. Það verður ekki af þeim tekið þeim sem vakið hafa máls á aðstöðu fórnarlamba og þessum málum öllum að þau hafa auðvitað haft áhrif á umræðuna og framgang þessa máls í þinginu.