147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[23:54]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Lög nr. 80/2016, um útlendinga, voru samin af innanríkisráðuneytinu og þverpólitískri þingmannanefnd sem skipuð var innanríkisráðherra og m.a. var ætlað að skoða hvernig móta mætti innflytjendastefnu og löggjöf sem tæki mið af þörfum íslensks samfélags ásamt því að tryggja mannúð, skilvirkni og farsæla móttöku þeirra sem hingað leita. Nefndin var leidd af Óttari Proppé, en auk hans áttu þar sæti Svandís Svavarsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Birgitta Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Þingmannanefndin hafði það að leiðarljósi að bæta enn frekar íslenska löggjöf um útlendinga í samráði við helstu sérfræðinga á sviðinu, háskólasamfélagið og sjálfa notendur kerfisins. Markmiðið með skipan nefndarinnar var að stuðla að samstarfi milli þingmanna, embættismanna og fræðimanna og stuðla þar með að ábyrgum skrefum í flóknum málaflokki þar sem stefnumótun er unnin að vel ígrunduðu máli með hliðsjón af þverfaglegum rannsóknum. Fjölmargir aðilar, stofnanir, hagsmunasamtök og mannréttindasamtök komu að undirbúningi frumvarpsins. Þá var sérstaklega litið til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við frumvarpssmíðina.

Minni hlutinn lítur sérstaklega til þeirra vönduðu vinnu sem unnin var á síðasta löggjafarþingi, þess víðtæka samráðs sem viðhaft var og þeirrar þverpólitísku sáttar sem skapaðist. Minni hlutinn leggur áherslu á að taka þurfi til skoðunar lög um útlendinga og kanna hvernig megi bæta meðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd, réttindi þeirra og stöðu þeirra hér á landi. Tryggja þurfi að vandað sé til verka við lagasetningu þegar gera á breytingar á svo viðamiklum og viðkvæmum málaflokki sem útlendingamálin eru. Sambærileg mál þarf að afgreiða á sams konar hátt. Það getur ekki talist til eftirbreytni að brugðist sé við einstökum málum í flýti afturvirkt með lagasetningu.

Mikilvægt er að sátt ríki um störf þeirra stofnana sem fara með útlendingamál. Trúverðugleiki þeirra stofnana fæst ekki með því að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á stjórnsýslunni í einstökum málum. Stjórnsýslan framfylgir þeim lögum sem Alþingi setur og ef túlkun þeirra stofnana sem hér um ræðir samræmist ekki skilningi þingsins þarf að endurskoða löggjöfina sjálfa. Slík endurskoðun getur ekki farið fram með tilliti til einstakra ákvarðana heldur að vel ígrunduðu máli með víðtæku samráði sérfræðinga og með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Þá telur minni hlutinn að stórum álitaefnum sem tengjast fyrirliggjandi frumvarpi sé enn ósvarað.

Þær breytingar sem frumvarpið fela í sér vekja upp spurningar um jafnræði. Þar sem frumvarpið tekur eingöngu til þeirra umsókna sem bárust fyrir gildistöku þess verður ekki séð að greinarmun megi gera á aðstæðum þeirra sem frumvarpið tekur til og þeirra sem á eftir koma.

Markmið laganna miðar að því að ná til þeirra einstaklinga sem eru í mestri neyð. Í því samhengi er ekki hægt að taka afmarkaðan hóp út fyrir sviga án þess að það bitni á þeim sem síðar koma.

Við meðferð málsins hjá nefndinni kom fram að Dyflinnarreglugerðin sé túlkuð rúmt af íslenskri stjórnsýslu, rýmra en í nágrannaríkjum okkar. Þá berast Íslandi hlutfallslega margar umsóknir um alþjóðlega vernd og kom fram að fyrirséð væri sú breyting sem lögð er leiði til talsverðrar fjölgunar umsókna, auk þess sem ætla má að málsmeðferðartími lengist vegna aukins álags á Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Í því samhengi má geta þess að álag í málaflokknum hefur aukist umtalsvert síðustu ár.

Við meðferð málsins komu jafnframt fram alvarlegar athugasemdir sem snúa að þeim skilaboðum sem felast í frumvarpinu og snúa að því að börn og fjölskyldur með börn geti fengið einfaldari málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Komið hafa upp mál á Íslandi tengd mansali á börnum og hætt er við að breytingarnar geti aukið hættu á mansali eða smygli á börnum. Þá kom fram að Europol hefur varað við því að nú eru um 10.000 börn flóttafólks í Evrópu sem ekki er vitað hvar eru niðurkomin. Bent var á að þrátt fyrir að um skýrt afmarkaða afturvirka breytingu sé að ræða sé erfitt að sporna við því að flökkusögur fari á kreik um að auðveldara sé að fá hæli hér á landi en áður.

Minni hlutinn leggur áherslu á að mikilvægt sé að umsóknum um alþjóðlega vernd sé forgangsraðað eftir neyð. Afgreiðsla umsókna verður að byggjast á gagnsærri löggjöf. Lykilatriði er að öll mál séu ávallt afgreidd af jafnræði og sanngirni og í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

Undir þetta nefndarálit skrifa Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.