147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[23:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir framsöguna. Sem sérstakur áhugamaður um þjóðfræði, sagnfræði og allt sem tengist t.d. flökkusögum, get ég ekki látið hjá líða að spyrja hv. framsögumann aðeins út í þann kafla sem farið var yfir hér. Hér segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Bent var á að þrátt fyrir að um skýrt afmarkaða afturvirka breytingu sé að ræða sé erfitt að sporna við því að flökkusögur fari á kreik um að auðveldara sé að fá hæli hér á landi en áður og að skipulögð glæpastarfsemi sem gerir út á smygl á fólki víli ekki fyrir sér að kynda undir þá túlkun.“

Hvernig sér hv. framsögumaður fyrir sér að sé hægt að gera nokkrar breytingar í átt til batnaðar í þessum málum öðruvísi en að þessar meintu flökkusögur fari af stað?

Ég gerði nú skemmri skírn í leit á alþingisvefnum. Þetta er stór stund. Orðið flökkusögur hefur aldrei birst í þingskjali áður þannig að við erum að brjóta hér eitthvert blað. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé að gera nokkrar breytingar án þess að flökkusögur fari af stað, þessi furðulega hugmynd um flökkusögur?