147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég gleðst yfir því að þessi 80 börn og fjölskyldur þeirra komist í skjól. Þetta er vissulega lítið skref. Þetta er bara eitt skref í átt að meiri mannúð í þeim útlendingalögum sem við höfum sett okkur.

Það hafa ekki komið fram efnislegar tillögur, nei, mögulega ekki. Mig langar að leggja til að við skoðum aftur upphaflegu drögin að útlendingalögum sem lágu fyrir af því að ég man að mér voru kynnt þau drög. Þau fylltu mig gleði og von um að við ætluðum að taka núna vel á þessum málaflokki. En eitthvað gerðist í millitíðinni. Einhver mannúð lak þar út, talsverð raunar verður að segjast. Ég held að það væri bara fallegt ef við færum aftur á upphafsreit með þau drög sem kynnt voru fyrir hagsmunaaðilum, gott ef ekki árið 2014, og skoðuðum þau aðeins og athuguðum hvar okkur hefur borið af leið í þessu þverpólitíska ferli sem þingmönnum verður svo tíðrætt um. Þar getum við eflaust fundið margar góðar efnislegar breytingar sem einhvern veginn urðu ekki að lögum við gerð útlendingalaga sem við höfum í dag. Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja mál mitt mikið.

Mig langar að ræða aðeins um afturvirkni laga og hvers vegna við höfum bann við afturvirkni laga og hvernig það virkar. Mér finnst gæta viss misskilnings í nefndaráliti minni hlutans um þetta mál um það hvernig bann við afturvirkni laga virkar. Afturvirk lög má ekki setja hafi þau neikvæð áhrif á réttindi einstaklinga. Stjórnvöld mega ekki taka ákvarðanir afturvirkt hafi þær neikvæð áhrif á réttindi einstaklinga. Þetta er reglan um bann við afturvirkum lögum. Út á það gengur hún. Hún gengur út á að vernda réttindi borgaranna gagnvart ágangi yfirvalda. Hún er til þess gerð að ekki sé hægt að segja eftir á að eitthvað sé bannað með lögum og við því liggi fangelsisrefsing eða eitthvað álíka, t.d. til þess að ná sér niður á einhverjum óþægilegum einstaklingum. Út á það gengur sú regla.

Mér finnst gæta viss misskilnings í nefndaráliti minni hlutans gagnvart því þegar segir þar, með leyfi forseta:

„Sambærileg mál þarf að afgreiða á sams konar hátt.“ — Sem er alveg rétt. — „Það getur ekki talist til eftirbreytni að brugðist sé við einstökum málum í flýti afturvirkt með lagasetningu.“

Nú höfum við fordæmi fyrir því að við einstöku máli, að vissu leyti stærra máli, sem náði til aðeins stærri hóps fólks í þjóðfélaginu en samt sem áður einstakt mál, að við því var brugðist í flýti með afturvirkri lagasetningu. Það mál hafði neikvæð áhrif á réttindi borgaranna. Það var lífeyrismálið sem orsakaðist af klúðri í velferðarráðuneytinu og hefði orðið þess valdandi að ríkisvaldið hefði þurft að greiða út 5 milljarða til þeirra sem áttu bótarétt vegna mistaka í lagasetningu. Þá þótti nú meiri hlutanum ekki tiltökumál að setja afturvirk lög í miklum flýti til þess að bregðast við. Við skulum bara muna að það skiptir máli í hvaða tilgangi lög eru sett afturvirkt. Ef þau eru sett afturvirkt eins og í þessu tilfelli til þess að bæta réttindi þeirra sem lögin ná yfir, þá er allt í lagi að setja afturvirk lög. Það er bara svoleiðis. Ég vil minna hv. þingmann á þessa reglu og hvernig hún virkar og biðja hana um að hafa hana alltaf í heiðri, líka þegar það hentar ekki.