147. löggjafarþing — 7. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Eitt af markmiðum útlendingalaga er mannúð. Þetta frumvarp snýst einfaldlega um að bæta örlítið meiri mannúð í framkvæmd þeirra laga. Þetta kemur til vegna þess að okkur bárust fréttir í sumar af málum, jú, ákveðnum málum af því að þetta er kerfi sem snýst um einstaklinga og mál þeirra, þar sem maður fékk ekki annað séð en að fólk í viðkvæmri stöðu, mögulega fórnarlömb mansals, börn á flótta, veikt fólk, nyti ekki þeirrar verndar sem mannúðarsjónarmið útlendingalaga gera kröfu um.

Við þessu brugðumst við á þingi, eðlilega, með því að kanna málið nánar. Við nánari eftirgrennslan á fundi allsherjar- og menntamálanefndar kom í ljós að þessi grunur okkar var á rökum reistur. Framkvæmd laganna í tilvikum barna hælisleitenda er ekki nógu góð. Á þetta hafa UNICEF og Rauði krossinn bent, sem hafa það hlutverk að tala máli þeirra sem ekki geta talað fyrir sig sjálfir, sem eiga sér ekki nógu sterka málsvara í samfélaginu. Á það þurfum við að hlusta. Við þurfum að hlusta á það þegar starfsmenn UNICEF fara á vettvang og skoða aðbúnað hælisleitenda og hörfa nánast, svo slæmar eru aðstæðurnar, og benda á að ekki séu uppfyllt lágmarksskilyrði sem eru gerð til svona starfsemi þegar kemur að fjölskyldufólki og börnum. Meira að segja í aumustu flóttamannabúðum sem eru yfirfullar af fólki og settar upp tímabundið í einhverju fúafeni er einhvers staðar tjald með leikföngum og birtu og gleði, barnvænt svæði, fyrir börn flóttamanna til að fá að vera börn.

Þetta bjóðum við ekki upp á. Þetta býður Útlendingastofnun ekki upp á vegna þess að hún eins og við mörg hin og kerfið allt þjáist af barnasáttmálablindu, eins og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, komst að orði, barnasáttmálablindu sem lýsir sér í því að kerfið er ekki sniðið utan um börn sem skjólstæðinga. Það skortir fé. Það skortir starfsfólk. Það skortir þjálfun og það skortir rými til að við getum tekið á móti flóttabörnum sem eru væntanlega viðkvæmasti hópur sem samfélag getur tekið upp á arma sína. Til þess að við getum tekið sómasamlega á móti þessum börnum þurfum við að gera svo miklu, miklu betur. Þetta frumvarp leysir þann vanda ekki en það er þó skref í rétta átt. Það kemur til móts við stöðu á að giska 80 barna sem eru á ýmsum stöðum í ferlinu og tryggir þeim þó ekki væri nema bara efnislega meðferð mála sinna.

Það kom líka fram í máli hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag í 1. umr. þessa máls að það sem við hjá Vinstri grænum höfum gagnrýnt í hvert einasta skipti sem þessi mál ber á góma er bara reyndin. Ríkisstjórnin sem góðu heilli er fráfarandi lítur svo á að Dyflinnarumsóknir, fólk sem kemur inn og fellur undir Dyflinnarreglugerðina eigi bara helst að vera á færibandi, það eigi helst að sparka því út sem fyrst. Ef fólkið sem stýrir ríkisstjórninni lítur svona á börn sem koma inn í gegnum Dyflinnarreglugerðina þá er náttúrlega ekkert verið að búa til mikið kerfi utan um þau. Þau eru hvort eð er á útleið eftir smástund þannig að við þurfum ekkert að sinna grundvallarréttindum þeirra eins og að tryggja þeim menntun, sem við gerum oft ekki, eða tryggja þeim barnvæn svæði í kringum móttökumiðstöðvar, sem eru gjarnan staðsettar á iðnaðarsvæði í Hafnarfirði þar sem eina leiksvæðið er kannski bílastæði fyrir utan ef það eru ekki allt of margir bílar að bakka þar. Þetta er ólíðandi. Þetta er hluti af gríðarstóru vandamáli í útlendingamálum hjá okkur. Þetta er frumvarp er hluti af því sem við þurfum að gera til að takast á við það.

Ég bind miklar vonir við að næstu ríkisstjórn takist að taka almennilega á þessum málum þannig að við þurfum ekki að vera í kapphlaupi við tímann að semja frumvörp sem ná utan um 80 börn, heldur getum við búið til mannúðlegar reglur sem ná utan um öll börn sem eiga hingað erindi og eru velkomin í samfélag okkar. Á meðan þau eru í umsjá Útlendingastofnunar og annarra stjórnvalda þá fari vel um þau og þau fái að vera börn, af því að það er ekki staðan í dag.