147. löggjafarþing — 8. fundur,  27. sept. 2017.

kveðja þingmanns.

[00:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í ræðustól í síðasta sinn. Þetta er búinn að vera verulega viðburðaríkur tími, að mörgu leyti erfiður tími frá því að ég tók sæti á Alþingi í nóvember 2008, í miðju hruni, það eru næstum því níu ár síðan. En þetta hefur líka að mörgu leyti verið skemmtilegur tími fyrir mig. Ég er búin að kynnast mörgu góðu fólki, ykkur öllum sem setið hafa hér með mér. Við höfum tekist á. Við höfum oft verið ósammála, en hins vegar svo miklu oftar verið sammála. Það er góð tilfinning, ég vil að þið munið það, að taka ákvörðun um að hætta. [Hlátur í þingsal.] (BirgJ: Heyr, heyr.)

Ég óska ykkur góðs gengis í kosningunum. Við erum þrjár, held ég, sem erum búnar að taka ákvörðun um að gefa ekki kost á okkur áfram. Ég vil hvetja ykkur hin til dáða á nýju þingi. Hvað varðar kosningabaráttuna óska ég þess að hún verði málefnaleg, hún verði góð, efnisleg og að þið komið aftur hugsanlega ásamt nýjum félögum af fullum krafti inn á þingið og haldið áfram að vinna vel fyrir samfélag okkar.

Það er ekki alltaf talað vel um þennan vinnustað, en ég verð aldrei í þeim hópi. Þetta er einkar merkilegur og mikilvægur vinnustaður. Við erum að búa til leikreglurnar fyrir samfélag okkar. En það er kannski eitt sem ég vildi fá að segja að lokum, það er nokkuð sem ég tel mig alla vega hafa lært og hefur ekki verið auðvelt að læra; að samhliða því að við setjum leikreglur fyrir alla aðra í samfélaginu er svo mikilvægt að byrja á okkur sjálfum, að hver og einn velti fyrir sér hvað hann sjálfur getur gert öðruvísi. Það er einmitt þannig sem er best að koma skilaboðum á framfæri til samfélagsins í heild, með því að vera fyrirmynd. Það er ekki auðvelt. Við gerum mistök. Við erum mannleg. En þess vegna erum við líka kosin á Alþingi Íslendinga, til að vera manneskjur.

Takk kærlega. Ég þakka forseta fyrir gott samstarf.

Í síðasta hluta ræðu minnar ætla ég að fá að þakka starfsfólki Alþingis sem gerir þennan vinnustað að jafn góðum vinnustað og raun ber vitni, sem er ómetanlegur stuðningur við okkur í gegnum allt það sem gengur á oft á hverjum degi. Takk kærlega fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)