147. löggjafarþing — 8. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég boðaði hér í umræðu um stefnuræðu forseta fyrir nokkrum dögum víðtækt samráð allra þeirra flokka sem eiga sæti á þingi um ekki bara endurskoðun á útlendingalögum heldur í rauninni eftirfylgni með þeim lögum sem nú gilda og voru samþykkt í þverpólitískri samstöðu á síðasta þingi. Ég tel einboðið að til þessa vettvangs verði boðað að loknum kosningum. Ég get fullyrt að gefist mér tækifæri til þeirrar vinnu mun ég taka þátt í henni sem og Sjálfstæðisflokkurinn að sjálfsögðu allur. Sú löggjöf sem hér er til umræðu hins vegar á ekkert skylt við þá almennu endurskoðun sem hugsanlega kann að þurfa að fara fram á þeim lögum.

Virðulegur forseti. Ómannúðlegasta leiðin við breytingar á útlendingalögum er í rauninni sú sem hér er farin [Kliður í þingsal.] þar sem staðfest er að hælisleitendur eigi örlög sín undir geðþótta stjórnvalda á hverjum tíma. Margir hælisleitendur eru nú einmitt að flýja það.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt og tel brýnt að menn hafi í huga að hér verði starfræktur næstu misserin þverpólitískur samráðsvettvangur um framkvæmd og framgang útlendingalaganna í heild. (SJS: Það byrjar vel hjá ykkur, Sjálfstæðis …)