147. löggjafarþing — 8. fundur,  27. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[00:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um mjög viðkvæman málaflokk sem snertir fólk og sérstaklega börn sem eru í veikri stöðu. Því ber að vanda sig. Því er mjög erfitt að fara í gegnum þetta og vita hvernig maður getur orðið að liði til að hjálpa börnunum sem best og sem flestum. Það er það sem við stefnum öll að. Það var í þeim anda sem við bjuggum til þá löggjöf sem við samþykktum hér á síðasta þingi í samvinnu. Sú löggjöf er túlkuð rúmt á Íslandi. Dyflinnarreglugerðin er meðhöndluð rúmt á Íslandi. Það hefur komið fram við vinnu þessa máls.

Það kom líka skýrt fram í vinnunni að margt þarf að laga í löggjöfinni og sérstaklega við meðferðina á börnunum og hvernig við tryggjum framkvæmd mannréttindasáttmálans. Það skulum við fara saman í. En það sem truflar mig í þessu er sérstaklega tvennt, það er að í þeim lögum sem eru hér til umræðu er ekki gætt jafnræðis. (Forseti hringir.) Ef rangur orðrómur fer af stað getur þetta sett börn (Forseti hringir.) í sérstaklega veika stöðu. Það get ég ekki stutt.