147. löggjafarþing — 8. fundur,  27. sept. 2017.

þingfrestun.

[00:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrir hönd þingflokksformanna að þakka fyrir samstarfið á þessu sögulega þingi. 147. þing verður lengi í minnum haft, stutt, óvenjulegt og reyndi verulega á starfsfólk Alþingis sem á skilið sérstakar þakkir frá okkur þingmönnum. Þau hafa lagt mikið á sig undanfarna daga, sinnt þingmönnum, fundum, stuttum og löngum, svarað spurningum, einföldum og flóknum, símtölum og samtölum, seint og snemma, glímt við texta, nefndarálit, greinargerðir, fundargerðir, bókanir, dagskrár, skráningar mála, skrifað upp ræður, misgóðar, sinnt okkur þingmönnum í öllum okkar daglegu sveiflum, þingmönnum sem sumir hverjir halda á vit nýrra starfa og öðrum sem hyggjast bjóða sig fram að nýju.

Fyrir hönd okkar allra: Kærar þakkir.

Einnig langar mig að þakka hæstv. forseta, Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir lagni, úthald og sveigjanleika á þessum óvenjulegu tímum. Henni ferst embættið sérlega vel úr hendi, hún er nefnilega forseti okkar allra og verðskuldar þakkir okkar fyrir það. Takk fyrir það líka að vera forseti sem vill brjóta blað, forseti sem vill færa embættið til nútímans, auka skilning og umræðu í samfélaginu öllu, um hlutverk og eðli okkar gamla, mikilvæga og dýrmæta Alþingis.

Alþingi á nefnilega skilið að okkur þyki vænt um það, að við umgöngumst það af virðingu, en líka af þrótti og ástríðu sem dagleg umræða og átök um framtíðarsýn og þróun samfélagsins okkar verðskuldar.

Forseti. Við höldum nú á fund kjósenda sem gefa nýju þingi umboð við kosningar. Gætum að því umboði í dagsins önn. Sýnum okkur sjálfum, hvert öðru og þjóðinni sóma á þeim vikum sem fram undan eru. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)