148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra. Ríkisstjórn. Þingheimur allur. Kæru Íslendingar. Ég kýs að ávarpa alla hér í kvöld vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem mér hlotnast sá heiður að fá að standa í öflugasta og virtasta ræðupúlti landsins — og það er í boði ykkar, kæru landsmenn.

Ég vil byrja á því að óska nýrri ríkisstjórn hjartanlega til hamingju. Það er margt gott og kjarnmikið sem kemur fram í nýjum stjórnarsáttmála og ég ætla sannarlega ekki að standa hér og byrja á því að vera neikvæð og alls ekki leiðinleg. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það er eiginlega allt of fátt, þykir mér, í stjórnarsáttmálanum sem um leið einkennir stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra sem er hönd á festandi. Það er algjör snilld að það á að reyna að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 hvað varðar menntafólkið okkar. Við ætlum líka að vera með háleit markmið og reyna að ná meðaltali Norðurlandanna fyrir árið 2025. Þetta er vel.

Eins og ég segi er margt vel meint í þessum sáttmála. Talað er um jöfnuð, jöfn tækifæri og jöfn tækifæri fyrir alla. Ég vil halda mig við það sem varð til þess að Flokkur fólksins er til og Flokkur fólksins er nú hér. Það er og hefur verið í áratugi, og virðist vera framhald á því, að þessi jöfnu tækifæri verði einungis fyrir suma, því miður.

Ég er hér með fjárlagafrumvarpið. Ég er enginn sérfræðingur í að lesa fjárlagafrumvörp og það get ég svarið að það er bara ekkert rosalega auðvelt að klóra sig í gegnum það. En við fengum í dag, svo ég hlaupi úr einu í annað, góða heimsókn í þingið. Þar komu fulltrúar öryrkja, nýkjörinn formaður með sínum stuðningsmönnum, og færðu okkur gjöf. Hún færði þingmönnum gjöf öryrkjans í ár sem er þessi: Skerðing, heitir hún. Þetta er spilið í ár, jólaspilið sem öryrkjar spila, spilið sem enginn óskar sér að fá vegna þess að í þessu spili eru engir peningar. Í þessu spili er talað um að „freista ógæfunnar“ eins og þar stendur. Venjulega viljum við freista gæfunnar. Það sem ég legg áherslu á er að þetta ágæta fjárlagafrumvarp, ágæta fyrir suma, undirstrikar nákvæmlega það sem ég óttaðist og ástæðu þess að ég stend hér og nú: Það á lítið sem ekkert að gera í kjarabótum fyrir öryrkja.

Við — ég ætla náttúrlega ekki að tala um mig vegna þess að hér stendur nú öryrki á ofurlaunum og það er í boði ykkar, kæru landsmenn. Ég vona svo sannarlega og trúi því að það traust sem þið hafið lagt á okkur í litla Flokki fólksins verði þess virði og að þið eigið aldrei eftir að þurfa að sjá eftir atkvæði ykkar. Við komum ekki til með að vera með hefðbundnar aðgerðir í þingsölum. Við komum til með að fylgja hugsjóninni, berjast fyrir því sem við vorum kjörin til að gera, en við viljum líka gjarnan sjá allt það ágæta fólk sem hér er, 63 fulltrúa þjóðarinnar, þó að tilheyri átta þingflokkum, að við séum bær til þess og tilbúin að mætast á miðri leið hvar sem við stöndum til þess nákvæmlega að útrýma fátækt. Það er þjóðarskömm í okkar hagsæla, moldríka landi að hér skuli ríkja fátækt, að fjöldi manna skuli búa í hjólhýsum og tjöldum niðri í Laugardal. Meira að segja fór rafmagnið af hjá þeim um daginn, hæstv. forseti, sem varð til þess að þau þurftu að vera rafmagnslaus í húsbílunum sínum í tíu stiga frosti.

Fyrirgefið, ég er öll að þorna upp hérna í pontunni. Ég ætla að fá mér vatnssopa.

Við sjáum og að talað er um að komið hafi verið til móts við kröfur eldri borgara um að hækka frítekjumark á launatekjur. Það er satt. Það var komið örlítið til móts við þá, í áttina að því að koma frítekjumarkinu næstum því þangað sem það var þegar það var höggvið niður, næstum í það sem það var þá, 100 þús. kr. núna um áramótin. Mér hefur áskotnast skýrsla sem hefur verið unnin fyrir eldri borgara, mjög vönduð og góð skýrsla. Hún er full af staðreyndum og útreikningum sem ég mun glöð leggja fyrir hér sem sýna og sanna að það sem við vorum að boða í kosningabaráttunni er einfaldlega þetta: Það er lýðheilsumál að afnema algjörlega skerðingar á launatekjur eldri borgara og öryrkja. Það er verið að tala um jöfnuð, það er verið að tala um jöfn tækifæri og hagsæld. Hvers vegna í veröldinni skyldi okkur þá ekki gert kleift að vinna ef við mögulega getum, að reyna að bjarga okkur sjálf ef við mögulega getum? Sér í lagi þegar þau sem reikna það út í hv. Alþingi líta aðallega á excel-skjalið sem á að vera neikvætt og bera ákveðinn kostnað fyrir ríkissjóð? Hver er það sem reiknar hins vegar út hvað myndi skila sér til baka í formi skatta; tekjuskatta, óbeinna skatta, neysluskatta í allar áttir þegar við mögulega hefðum meira á milli handanna?

Mig langar að segja ykkur frá því, kæru landsmenn, að í gær — það er ekkert skemmtilegt að segja frá því í pontu á þessu kvöldi að ég hafi fengið tannpínu en ég sé að nú á að bæta í og efla fjármagn til tannheilsu eldri borgara og öryrkja. Í rauninni er það hálfhlægilegt vegna þess að lagalega eigum við að fá niðurgreidd 75% tannlæknakostnaðar. Ég veit ekki hvers vegna í veröldinni ég fékk bara 16%, hefði í raun átt að fá 0% þar sem ég er öryrki á hálaunum í dag. En ég hitti gömul hjón sem voru að fara í lyftuna þegar ég var að fara heim. Þau óskuðu mér til hamingju og sögðust hafa kosið okkur. Ég þakkaði þeim fyrir og benti þeim einfaldlega á að án þess stuðnings sem ég hef fengið og möguleikanna á að standa hér og nú hefði ég ekki getað farið til tannlæknis. Ég hafði ekki getað farið til hans í níu ár. Er þetta boðlegt? Er boðlegt að gamla fólkið okkar skuli leggjast áhyggjufullt á koddann á kvöldin? Er það boðlegt að börnin okkar skuli ekki getað notið gleðilegra jóla? Það er varla hægt að kaupa jólasteik á borðið vegna þess einfaldlega að foreldrarnir ná ekki endum saman. Þegar við erum að tala um 9,1% barnanna sem líða hér mismikinn skort var það í janúar 2016 samkvæmt skýrslu UNICEF á Íslandi. Það hefur bara aukist.

Við skulum átta okkur á því að í góðærinu hefur það einungis aukist.

En það er líka margt annað. Nú er ég nánast komin í framboðsræðu í stóli Alþingis og ég vonast til þess að ég eigi eftir að læra. Þetta er bara fyrsta ræðan. Ég ætla sannarlega að vona, herra forseti, að ég eigi eftir að læra og kunna mig kannski betur og hætta að vera endalaust með framboðsræður. En erum við ekki alltaf í kosningabaráttu alveg frá því að við tókum þá ákvörðun að við ætluðum að vera í pólitík? Ég vildi gjarnan sjá bara einn flokk allra landsmanna sem ynni að því leynt og ljóst að útrýma fátækt og hætta að skattleggja hana þannig að við gætum öll fengið að njóta þess í fallega landinu okkar að lifa hér með reisn.

Ég vil gjarnan ljúka ræðunni á jákvæðu nótunum og vil því segja að það er samt sem áður staðreynd að í nýju fjárlagafrumvarpi er verið að auka verulega í til heilbrigðisþjónustu. Það er verið að auka í innviði. Það sem ég kalla helst eftir er að mér finnst forgangsröðunin ekki rétt. Ég vil byrja á börnunum. Ég vil byrja á fátæka fólkinu. Ég vil að allir geti þá notið þess sem er verið að gera vel hér í auknum framlögum til heilbrigðis- og menntamála.

Ég segi bara: Það eina sem við getum gert núna er að vona virkilega að allt það góða fólk sem hefur valist til verksins, ákveðið að vinna að hagsæld okkar og tekið að sér að leiða þessa ríkisstjórn meini virkilega það sem það segir, að það ætli algjörlega frá hjartanu að leggja allt í að standa við það sem það boðar í þessum fallega sáttmála, að það sé ekki bara verið að tala um úttekt fátæktar vegna þess að á bls. 29 í þessum 38 blaðsíðna sáttmála kemur einu sinni fyrir orðið fátækt. Það er undir liðnum um jöfn tækifæri, svona litlum lið í sáttmálanum.

Ég vil samt að við séum bjartsýn og brosandi. Það þýðir ekkert alltaf að horfa í skotið. Við skulum vera bjartsýn og brosandi og gefa góðri ríkisstjórn tækifæri til að sýna sig og sanna og standa við stóru orðin. Það er eingöngu með því að brosa og reyna að vera bjartsýn sem við getum litið glaðan dag á morgun þrátt fyrir að margir hafi það mjög bágt.

Kæru landsmenn. Brosið hvert til annars. Reynum að taka fagnandi á móti jólunum. Verum góð hvert við annað. Gleðileg jól og takk fyrir mig.