148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er lögð rík áhersla á umhverfis- og náttúruvernd og þið verðið að fyrirgefa þótt ég tali aðallega um hana hér í kvöld.

Markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 er stórtíðindi. Sá metnaður hefur nú þegar vakið athygli út fyrir landsteinana. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum mun líta dagsins ljós á næsta ári. Slík áætlun er mikilvæg, enda erum við í ábyrgðarhlutverki gagnvart bæði umheiminum og komandi kynslóðum.

Áhersla verður lögð á að ná samdrætti í útlosun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á sem flestum sviðum, t.d. með rafbílavæðingu í samgöngum. Efnahagslegur ábati fylgir mörgum þessara aðgerða, þ.e. það er einfaldlega hagkvæmt að ráðast í þær. Þá telja Vinstri græn brýnt að ráðast í heildarendurskoðun á grænum sköttum sem stuðla að og hvetja til loftslagsvænna ákvarðana. Hækkun kolefnisgjalds um 50% er fyrsti áfanginn á þeirri vegferð.

Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysinu er hins vegar að vinna heildstæða áætlun vegna bindingar kolefnis úr andrúmslofti. Slíkar aðgerðir munu ríða baggamuninn ef þetta markmið á að nást.

Góðir landsmenn. Við getum öll glaðst yfir því að stofna á þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þverpólitískri nefnd verður komið á laggirnar í kringum það verkefni og víðtækt samráð haft við sveitarfélög, almannasamtök og hagsmunaaðila. Þjóðgarður á miðhálendinu verður stærsta skref sem stigið hefur verið í náttúruvernd á Íslandi og mun spila stórt hlutverk fyrir ímynd Íslands sem ferðaþjónustulands. Með svæðaskiptingu innan þjóðgarðs má tryggja að sum svæði njóti meiri verndar meðan á öðrum svæðum yrðu leyfðar hefðbundnar nytjar, svo sem sjálfbær beit og veiðar. Þjóðgarðar eru ekki afgirt virki þar sem allt er bannað, enda er eitt af markmiðum þeirra að miðla og fræða um náttúruna og styðja við magnaða náttúruupplifun — eða unaðsstundir eins og Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur orðaði það.

Góðir landsmenn. Ég hef lengi undrast að umhverfismálum og efnahagsmálum sé stillt upp sem andstæðum án þess að greiningar liggi þar að baki. Í því samhengi eigum við hiklaust að bera saman efnahagsleg áhrif virkjunarframkvæmda og þjóðgarða eða annarra friðlýstra svæða. Máli mínu til stuðnings nefni ég nýútkomna rannsókn meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Neminn rannsakaði efnahagsleg áhrif þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem reyndust vera 3,9 milljarðar íslenskra króna á ári og þar af verður 1,8 milljarðar eftir á Snæfellsnesi. Skatttekjur þjóðarbúsins af gestum þjóðgarðsins eru 14-faldur sá kostnaður sem notaður er til að reka hann á ári. Það er uppörvandi að í rannsókninni kemur fram að fyrir hverja krónu sem lögð er í rekstur þjóðgarðs á Snæfellsnesi fær þjóðarbúið 58 kr. til baka.

Þessar niðurstöður sýna auðvitað að náttúruvernd og náttúrumiðuð ferðaþjónusta er efnahagslega sterkur valkostur við nýtingu náttúruauðlinda. Þjóðgarðar eru efnahagsleg tækifæri fyrir byggðaþróun í landinu.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin hyggst ráðast í mjög svo tímabæra gerð heildstæðrar langtímastefnumótunar í orkumálum. Við þurfum að greina orkuþörf næstu áratugina og í hvað við viljum verja orkunni. Í þessu samhengi er mikilvægt að fara vel yfir samspil vinnunnar við gerð orkustefnunnar og þeirra ákvarðana sem þarf að taka á grunni rammaáætlunar um hvar megi virkja og hvar beri að vernda.

Góðir landsmenn. Þegar andstæð öfl í pólitík mætast við ríkisstjórnarborðið eins og nú er höfum við einstakt tækifæri til að vinna að meiri sátt í náttúru- og umhverfismálum. Þess vegna ákvað ég að ganga til liðs við ríkisstjórnina. Sjálfur ætla ég að reyna að finna kjarkinn til þess að brjótast út úr átakastjórnmálunum og beina orku minni í að leita lausna með ykkur öllum. Megi mér farnast sú vegferð vel ásamt ykkur öllum og óska ég landsmönnum öllum og þingheimi gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.