148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Um þessar mundir eru 500 ár síðan siðbótin leit dagsins ljós. Siðbótin er kennd við Martein Lúther og baráttu hans gegn spillingu innan kaþólsku kirkjunnar. Samtryggingin og velferðin eiga upphaf sitt í siðbótinni. Heilbrigðisþjónustan og aðstoðin til handa fátækum.

Barátta Lúthers gegn spillingu bar árangur. Upphafið að þessu öllu saman var handskrifaður miði, festur á kirkjuhurð í Þýskalandi. Í dag myndi duga skammt að setja miða á hurð fjármálaráðuneytisins og biðja hæstv. fjármálaráðherra um að leyna nú ekki neinum upplýsingum sem gætu sprengt nýju ríkisstjórnina.

Við höfum fjölmiðla sem Lúther hafði ekki. Best er að láta fjölmiðla sjá um þessi mál en fjölmiðlar mega ekki fara í manngreinarálit. Þeir mega ekki fara neinum silkihönskum um nýju ríkisstjórnina þó að Vinstri grænir séu þar í forsæti. Nú er komið kjörið tækifæri fyrir Ríkisútvarpið til að hrista af sér vinstri stimpilinn.

Skömmu eftir að ég var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn gekk ég yfir Austurvöll. Við styttuna af Jóni Sigurðssyni var saman kominn góður hópur af erlendum fréttamönnum og ferðamönnum. Fyrir hópnum fór íslenskur leiðsögumaður. Ég lagði við hlustir. Hann sagði Ísland vera spilltasta ríkið í Evrópu og alþingismenn marga hverja spillta. Mér brá við þetta og hugsaði: Það var þá landkynningin.

Auðvitað er þetta ekki rétt, spilling er t.d. landlægt vandamál í ríkjum Austur-Evrópu, en þetta sýnir að við sem hér erum höfum öll verk að vinna við að byggja upp traust, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði. Fráfarandi ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum vegna tengsla fyrrverandi forsætisráðherra við viðkvæmt mál sem reynt var að þagga niður. Það fellur undir hugtakið spilling að reyna að þagga niður óþægileg mál. Þingmaður Vinstri grænna sagði fyrir skömmu að þjóðin hefði gott af því að fá frí frá spillingarmálum Sjálfstæðisflokksins. Hver hefði síðan trúað því að Vinstri grænir ættu eftir að tryggja þessum sama flokki áframhaldandi völd?

Ræða hæstv. forsætisráðherra fannst mér bera þess merki að hún hefði ekki gengið glöð til þessa samstarfs. Það er nú þannig að léleg sáning skilar lélegri uppskeru.

Ýmislegt athugavert er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Engin breyting er gerð á tryggingagjaldi eins og var lofað. Þetta er í boði Sjálfstæðisflokksins sem telur sig vera besta vin atvinnulífsins.

Tilboðið handa eldri borgurum er rýrt og hækkun upp á 1 milljarð til vegamála, 5%, er nú allt átakið í þeim málaflokki.

Það er ekki hægt að fara í allar þessar framkvæmdir, sagði hæstv. samgönguráðherra í Fréttablaðinu í dag. Hann lofaði öðru fyrir kosningar.

Nú þegar kona er sest í stól heilbrigðisráðherra vil ég hvetja hana til að beita sér sérstaklega fyrir bættum kjörum kvenna í heilbrigðisgeiranum. Ekki er vanþörf á enda skortur á fagfólki og vinnuálagið mikið.

Á Suðurnesjum er mikil fólksfjölgun en fjárveitingavaldið hefur því miður ekki verið svæðinu sérstaklega hliðhollt. Vænti ég þess að fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leiðrétti ranglætið sem heldur áfram á hans vakt.

Ég deili þeim óskum með þjóðinni að fram undan sé stöðugleiki í stjórnmálum á Íslandi. Nýs forsætisráðherra bíður það vandasama verkefni að tryggja að svo verði. Verkefnið verður ekki auðvelt. Meðreiðarsveinar hennar tveir eru ekki þekktir fyrir að hafa stuðlað að pólitískum stöðugleika. Engu að síður hafa Vinstri grænir, flokkur sem var tiltölulega vammlaus í íslenskum stjórnmálum, ákveðið að fórna orðstír sínum fyrir völd, yfirgefa hugsjónir sýnar og ganga í eina sæng með gamalgrónum valdaflokkum sem fengu lélega útkomu í kosningunum, svo lélega að annað eins hefur ekki sést í 100 ár. Allt tal í kosningabaráttunni um að gefa þeim frí var hjóm eitt.

Ég óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með embættið og óska henni velfarnaðar, sem og ríkisstjórninni allri. Margir binda vonir við hæstv. forsætisráðherra og ég vona að hún tali um fleira en loftslagsmál. Nú hefur hún fengið tækifærið og vonandi stendur hún undir því. Það gæti kólnað hratt undir hinni pólitísku hjónasæng.

Góðir Íslendingar. Megi náð, friður og farsæld fylgja ykkur öllum.