148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Menntun, menning og íþróttir eru lykilstoðir í samfélagi okkar. Þetta er allt í senn uppspretta velsældar, hornsteinn framfara og rót aukinna lífsgæða. Fram undan er stórsókn í menntamálum. Við ætlum að búa börnin okkar og samfélagið allt undir þær viðamiklu og öru tæknibreytingar sem eru að verða og hafa nú þegar mikil samfélagslega áhrif. Við viljum að Ísland verði fyrsti kostur ungs fólks til búsetu, að menntakerfið verði í fremstu röð og leggi grunninn að hagsæld og vellíðan. Menntakerfið á að búa nemendurna undir nýjar áskoranir og fjölbreytt störf sem grundvallast á sköpun, færni og hæfni til að leysa flókin vandamál, enda á Ísland framtíðarinnar í auknum mæli að vera hugverkadrifið.

Framlög til menntamála eru fjárfesting en ekki útgjöld. Hver króna sem við leggjum inn í háskólastigið skilar sér áttfalt út í hagkerfið. Á næsta ári mun ríkisstjórnin auka fjárfestingu í háskólastiginu um 2.800 millj. kr. Fjárfestingin mun skila sér í fjölbreyttara atvinnulífi, betri áhættudreifingu hagkerfisins og auknum lífsgæðum. Framhaldsskólar landsins verða einnig efldir strax á næsta ári. Sá sparnaður sem stytting náms til stúdentsprófs skilar mun skila sér inn í rekstur skólanna ásamt rúmlega 1 milljarðs aukningu. Við ætlum að tryggja að skólakerfið verði bæði fjölbreytt og framsýnt. Með þeirri styrkingu erum við raunverulega að efla iðn- og verknám í landinu. Auk þess verður meiri áhersla á raun- og tæknigreinar á framhaldsskólastiginu.

Góðir landsmenn. Yfirvofandi fækkun í kennarastéttinni er ein stærsta áskorun samfélagsins. Margir kennarar eru að komast á eftirlaunaaldur og margir kjósa að starfa utan menntakerfisins. Samfélagið allt þarf að taka höndum saman svo að kennarastarfið öðlist að nýju þann sess og þá virðingu sem það á skilið. Við þurfum í sameiningu að leysa þann vanda sem blasir við okkur og nálgast hann með opnum huga, mögulega hugsa hlutina upp á nýtt, en ekki eingöngu út frá kerfinu eins og við þekkjum það í dag. Kerfisbreytingar geta verið af ýmsum toga. Ein slík er fyrirhuguð breyting á námslánakerfinu þar sem ætlunin er að auka hvata til góðrar ástundunar og breyta lánareglum LÍN svo að hluti lána breytist í námsstyrk klári nemandi nám sitt á tilsettum tíma.

Virðulegi forseti. Ég vil ræða mál sem okkur öllum er kært. Það mál er íslenskan, tungumálið okkar og staða hennar til framtíðar. Það er virkilega ánægjulegt að greina frá því að strax á næsta ári verða settar 450 millj. kr. í máltækniverkefni fyrir íslensku sem miðar að því að gera hana gildandi í þeirri tæknibyltingu sem á sér stað. Við eigum að halda íslenskunni að börnum okkar, hvetja þau til þess að lesa, skrifa og skapa meira. Við eigum að auðvelda útgáfu á íslenskum bókmenntum fyrir börn og fullorðna. Þess vegna ætlum við að breyta skattlagningu á íslensku ritmáli, tónlist og bókum, eins og stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Fyrsta skrefið verður að afnema virðisaukaskatt á bókum svo að rithöfundar og útgefendur hafi meira svigrúm til að bregðast við krefjandi aðstæðum. Auk þess verður farið í að efla rekstrarumhverfi fjölmiðla til að þeir geti haldið áfram að miðla til okkar vönduðu efni.

Við höldum áfram að styðja við íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð, sem er ekki aðeins mikilvæg fyrir íslenska málþróun, heldur hefur einnig skapað gríðarleg verðmæti fyrir samfélagið allt.

Góðir landsmenn. Menning, listir og íþróttir eru sameiningaröfl. Þau eru ófá skiptin sem við höfum glaðst yfir afrekum lista- og íþróttamanna okkar á erlendri grundu, hvort sem það eru stelpurnar okkar eða strákarnir okkar. Reglulega tekst því frábæra fólki að veita okkur innblástur og gera okkur stolt. Árangur strákanna okkar í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu er nýjasta dæmið af mörgum. Eitthvað segir mér að allir landsmenn bíði með eftirvæntingu eftir því að upplifa þá miklu þjóðhátíð sem mun ríkja í kringum heimsmeistarakeppnina í Rússlandi á næsta sumri. Því ber að fagna.

Að því sögðu vil ég óska öllum þeim flokkum og þingmönnum sem sitja hér velfarnaðar á komandi þingi. Ég hlakka mikið til að vinna með ykkur í að auka veg og virðingu Alþingis og sækja fram fyrir land og þjóð. — Góðar stundir og njótið aðventunnar.