148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Mér þykir engin ástæða til að draga fjöður yfir það að ýmislegt er gott í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Mörg þeirra góðu mála eru mér reyndar kunnugleg úr stjórnarsáttmála fyrri stjórnar. Það hefði jafnvel að ósekju fleira mátt flæða þar á milli, t.d. áherslur á að einfaldara verði fyrir innflytjendur að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, m.a. með því að einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan evrópska efnahagssvæðisins og með því að meta að verðleikum menntun fólks hvaðan sem hún kemur. Er það ekki verðugt markmið fyrir hæstv. menntamálaráðherra sem hefur talað svo fallega um mikilvægi menntunar?

Ýmislegt fleira má staldra við, enda margt sem á að skoða samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Jólagjöf ríkisstjórnarinnar til ferðaþjónustunnar er brotthvarf frá stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar um virðisaukaskattsbreytingu. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Villikettir Sjálfstæðisflokksins hafa forðast allar breytingar sem stungið hefur verið upp á í þeim málaflokki allt frá náttúrupassanum góða hér um árið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er þó vissulega kveðið á um að skoða skuli aðrar leiðir til gjaldtöku. Og nú er aftur boðuð skoðun á komu- og brottfarargjaldi í flugi. Með því eru Sjálfstæðismenn ekki bara að skoða skattahækkun á erlenda ferðamenn, íslenskir skattgreiðendur eru þar líka undir. Fyrst og fremst er þó um að ræða skilaboð um áframhaldandi aðgerðaleysi í þeirri mikilvægu atvinnugrein.

Uppfærsla á námslánakerfi landsmanna er löngu tímabær. Á síðustu sjö árum hefur verið farið í tvær tímafrekar endurskoðanir undir forystu tveggja af þremur stjórnarflokkum. Þar með mætti ætla að þar væri a.m.k. hægt að vaða beint í aðgerðir, vel ígrundaðar, og hefja margboðaða sókn og koma nauðsynlegum breytingum í gegn námsmönnum til heilla. Nei, í ráðuneyti menntamála er nú sestur fulltrúi þriðja stjórnarflokksins og boðar endurskoðun. En ekki hvað?

Virðulegi forseti. Svo allrar sanngirni sé gætt er það alls ekki svo að í stjórnarsáttmálanum eigi að skoða allt. Íhaldsstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þykir engin ástæða til að skoða umbætur í sjávarútvegi, landbúnaði eða gjaldmiðilsmálum. Ákveðnar breytingar á þeim úreltu kerfum gætu sannarlega orðið í þágu neytenda, í þágu almennings. En íslenskur almenningur á sér mótherja sem hafa greinilega sterkari ítök. Þetta er dapurleg þróun. En einhverra hluta vegna hafa menn talið þörf á að styrkja hér varnarveggina. Kannski voru þeir einfaldlega farnir að láta á sjá.

Góðir Íslendingar. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur, ef marka má fyrstu vísbendingar, sitthvað annað á stefnuskrá sinni en að gæta aðhalds og varkárni. Það eru ágætar líkur á friðsamlegu samstarfi á stjórnarheimilinu meðan vel árar, meðan hægt er að eyða án forgangsröðunar og án stórra stefnumótandi ákvarðana og aðgerða sem leggja eiga drög að gæfuríkri framtíð íslenskrar þjóðar. Þeim áskorunum verður slegið á frest.

Að lokum vil ég óska hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni allri velfarnaðar með öll góð verk í þágu lands og þjóðar. Og ykkur, kæru landsmenn, óska ég farsældar á komandi ári.