148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 sem er 1. mál 148. löggjafarþings. Eins og allir vita er þetta frumvarp lagt fram við nokkuð óvanalegar aðstæður og það kemur afskaplega seint inn hér á þingvetri. Þetta eru aðstæður sem við höfum ekki ráðið við. Ég verð að segja að með tilliti til aðstæðna hefur það verið nokkurt afrek af stjórnkerfinu að koma frá sér frumvarpi hingað til þingsins. Ég ætla ekki að eigna þeim stjórnmálamönnum sem hafa þar komið að málum heiðurinn af því heldur miklu frekar því fólki sem starfar í stjórnkerfinu.

Það er ljóst að hafi fjárlagafrumvarp ekki verið lagt fram og samþykkt fyrir áramót mun skorta heimildir í lögum til að tryggja framhald og samfellu í starfsemi ríkisins. Það er því mikilvægt að Alþingi nái að fjalla um frumvarpið með skilvirkum hætti þá daga sem eftir lifa árs, þótt fáir séu. Ég vænti góðs samstarfs við þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, á komandi dögum. Við munum veita allar upplýsingar eftir því sem hægt er til að styðja við sem besta þinglega meðferð.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 endurspeglast fyrstu áherslur nýrrar ríkisstjórnar, sem miða að því að samfélagið allt njóti góðs af þeim uppgangstímum sem hér hafa verið undanfarin ár og spáð er að haldi áfram. Þannig getum við treyst til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, aukið velsæld og lífsgæði. Það er brugðist við ákalli um að fjármagna betur ýmsa mikilvæga samfélagsþjónustu en einnig innviði. Á sama tíma er horft til þess að afkoma ríkisfjármálanna verði góð og endurspegli í senn ábyrgð og festu og að ríkissjóður verði að skila góðri afkomu þegar hagvöxtur mælist ár eftir ár. Það verður áfram dregið úr skuldum ríkissjóðs á árinu 2018.

Þrátt fyrir að ýmis teikn séu um að Ísland hafi náð toppi efnahagssveiflunnar eru horfur áfram góðar í mörg næstu ár. Ytri aðstæður hafa reyndar verið hagfelldar í mörg ár. Það er sama hvort við lítum til ástands fiskstofnanna, til þess hvernig grunnatvinnuvegirnir í landinu standa eða viðskiptakjara á útflutningsmörkuðum. Í flestu tilliti er gott útlit fyrir efnahagsmál á Íslandi.

Þær efnahagslegar framfarir sem átt hafa sér stað á undanförnum árum hafa farið saman við það að við höfum rétt við fjármál hins opinbera og komið þeim að nýju á traustan grunn. Viðfangsefnið fram undan er þess vegna að varðveita árangurinn og framlengja hann með samstilltri hagstjórn peningamála, opinberra fjármála og vinnumarkaðarins. Þetta mun stuðla að hóflegum hagvexti og stöðugleika. Opinberu fjármálin þurfa að skila sínu og veita hæfilegt aðhald á næstu árum. Við þurfum að leggja áherslu á gott samtal, gott samstarf, góðan frið við vinnumarkaðinn.

Samhliða fjárlagafrumvarpinu leggur ný ríkisstjórn fram fjármálastefnu sem leggur línurnar um lykilþætti opinberra fjármála til næstu fimm ára, einkum um þróun heildarafkomu og skulda. Samkvæmt stefnunni er gert ráð fyrir að afgangur af rekstri ríkissjóðs verði aukinn á árinu 2018, borið saman við fjárlög yfirstandandi árs, og að afgangur á afkomu ríkissjóðs verði hóflegur eftir það. Þá verði gert ráð fyrir áframhaldandi niðurgreiðslu skulda eins og áður er vikið að en stefnumörkun af þessum toga hefur aukið tiltrú á stöðu hins opinbera á alþjóðavísu, sem endurspeglast m.a. í hækkandi lánshæfiseinkunnum og batnandi lánakjörum. Það má nefna í því samhengi að nú í vikunni fékk ríkið afar hagstæða vexti á útgáfu skuldabréfa í evru og markar aðgerðin mikil tímamót hvað varðar hagstæð kjör fyrir ríkissjóð. Í fjármálastefnunni birtist einnig hvernig stjórnvöld hyggjast mæta kröfum laga um opinber fjármál um að byggt verði á grunngildum um stöðugleika og sjálfbærni og að farið verði eftir fjármálareglum um afkomu og skuldir yfir tímabilið. Framfylgd þessara gilda og meginreglna um þróun opinberra fjármála sem Alþingi hefur sett hefur mikla þýðingu í hagstjórnarlegu tilliti þar sem hún er til þess fallin að stuðla að efnahagslegum stöðugleika.

Virðulegi forseti. Staða efnahagsmála og fjármál ríkisins eru allrar athygli verð í alþjóðlegum samanburði, enda hafa þau leitt til batnandi lánshæfismats ríkisins síðustu misseri. Ef Ísland er borið saman við Evrópusambandsríkin sést að frumjöfnuður hefur á undanförnum árum verið umfram það sem þar gerist. Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir 4,9% hagvexti árið 2017 og þótt dragi úr honum á næsta ári verður hann áfram kröftugur eða um 3%. Gert er ráð fyrir að afgangur á frumjöfnuðinum verði áfram mikill og nemi um 3,5% af vergri landsframleiðslu á næsta ári.

Í þessu frumvarpi er lagt upp með að afgangur á heildarafkomu ríkissjóðs verði nálægt 1,3% af vergri landsframleiðslu árið 2018 eða um 35 milljarðar kr. sem er í samræmi við nýja fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar þótt þar sé gert ráð fyrir að afgangurinn geti farið niður í allt að 1,2%. Það er umfram það sem menn sáu fyrir fyrir árið 2017 þegar við sinntum þessum sömu verkum fyrir ári síðan. Góður árangur hefur náðst við lækkun skulda ríkissjóðs frá því að þær náðu hámarki árið 2012, en þá námu þær 1.500 milljörðum kr. Á síðustu þremur árum eingöngu hafa skuldirnar lækkað um það bil um 400 milljarða kr. Þar af lækka þær á yfirstandandi ári um tæpa 200 milljarða kr. en það mun draga úr vaxtakostnaði á næstu árum sem nemur um 9 milljörðum kr. árlega. Vaxtagreiðslur eru þó áfram mjög þungur liður í útgjöldum ríkissjóðs og gert er ráð fyrir að þær verði 58 milljarðar kr. á næsta ári en að auki eru reiknaðir vextir vegna lífeyrisskuldbindinga 14 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir áframhaldandi niðurgreiðslu skulda. Þannig mun hlutfall brúttóskulda af vergri landsframleiðslu verða um 31% í lok ársins.

Virðulegi forseti. Ég nefndi hér í upphafi að leiðarstef nýrrar ríkisstjórnar væri að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að treysta ætti til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Hærri tekjur og svigrúm sem skapast hefur vegna niðurgreiðslu skulda gefur færi á að styrkja ýmsa innviði og bæta þjónustu við landsmenn. Enn er fyrir hendi uppsöfnuð fjárfestingarþörf frá árunum eftir hrun og er þeirri þörf að hluta mætt í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, það er auðvitað ekki áhlaupsverk, það er verkefni næstu ára, en við bætum í innviðafjárfestingu með fjárlagafrumvarpinu og mætum sömuleiðis betur en átt hefur við undanfarin ár kröfum um skilvirkari þjónustu á ýmsum sviðum. Það er aukið við framlög til heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpinu, m.a. með innspýtingu í heilsugæsluna, en einnig með fjölmörgum öðrum fjárheimildum. Gert er ráð fyrir útgáfu gjaldskrár vegna tannlæknakostnaðar aldraðra og örorkulífeyrisþega á næsta ári. Við munum auka við framlög til lyfjakaupa, sjúkrahúsþjónustan er betur fjármögnuð, það á við um Landspítalann en einnig sjúkrastofnanir á landsbyggðinni. Hér er horft til rekstrar- og tækjakaupa í senn. Sérstakt framlag er veitt til þjónustu við þolendur kynferðisbrota utan höfuðborgarsvæðisins, en þar hefur verið pottur brotinn á undanförnum árum. Alls eru aukin framlög vegna mála sem tengjast kynferðisbrotum um 400 milljónir kr. á ýmsum málefnasviðum.

Heildarhækkun framlaga til heilbrigðismála milli fjárlaga ársins 2017 og 2018 nemur ríflega 21 milljarði kr. Þá er allt talið með, laun og verðlag.

Ég verð að segja í því samhengi að það er margt sem bendir til þess að svigrúm til að bæta jafn miklu við inn á einstök málefnasvið á komandi árum verði takmarkaðra en Alþingi hefur mátt venjast á undanförnum árum. Það hefur að jafnaði verið svo að frá því að fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram, byggt á vorspá Hagstofunnar, þjóðhagsspánni, þar til fjárlagafrumvarpið hefur verið afgreitt í þinginu, hefur komið ný þjóðhagsspá og þannig hefur tekjuspáin farið upp á við og svigrúm vaxið hér í þinginu til þess að bæta í ýmsa málaflokka. Það er margt sem bendir til þess að þessum tíma sé núna að ljúka með því að hagvöxtur verði minni og það verði ekki stöðugur vöxtur á svigrúmi þingsins til að auka við ýmsa málaflokka. Ég ætlaði bara að koma þessari athugasemd að sem almennri athugasemd í framhaldi af því að við hækkum hér mjög verulega, eða um rúmlega 20 milljarða, framlög til heilbrigðismála á milli fjárlagaára.

Í fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2018–2022 sem samþykkt var fyrr á þessu ári var gert ráð fyrir að barnabætur yrðu nálægt 10,5 milljörðum kr. á næsta ári og er sú áætlun óbreytt í frumvarpinu. Það er hins vegar svo að á yfirstandandi ári eru barnabætur að reiknast um 9,6 milljarða kr. Þessi stefnumörkun þýðir þess vegna að útgjöld til barnabóta munu hækka um tæplega 10% milli ára í krónum talið. Við hyggjumst halda áfram og fullvinna tillögur um betri samhæfingu bótakerfanna, þ.e. vaxtabótakerfisins, barnabótakerfisins, húsnæðisbótakerfisins, og samþættingu þessara bótaflokka við skattkerfið.

Um áramótin munu frítekjumörk taka breytingum vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega þegar frítekjumarkið verður hækkað upp í 100 þús. kr. á mánuði. Það mun auka útgjöld áætlað um rúman 1 milljarð.

Í fjárlagafrumvarpinu eru á sviði mennta og menningar gerðar talsverðar breytingar til hækkunar ef við horfum á forsendur fjármálaáætlunarinnar til samanburðar. Þar má nefna 450 millj. kr. framlag til máltækniverkefnisins og þá eru framlög til framhaldsskóla aukin um 400 millj. kr. á næsta ári og framlög til háskóla um 1 milljarð kr., borið saman við fjármálaáætlun. Allt þetta er liður í að auka gæði náms á þessum skólastigum. Það er sérstakt markmið að hækka framlög á hvern ársnema háskólanna þar til þau verða tryggilega orðin sambærileg við OECD-ríkin og síðan við Norðurlöndin árið 2025. Við þurfum að komast að einhverju samkomulagi um það hvernig við eigum að gera þennan samanburð. Það er auðvitað algerlega ómögulegt í almennri umræðu um framlög til málaflokka sem eru jafn mikilvægir og þessir að við getum ekki einu sinni komist að niðurstöðu um samanburðartölurnar. Það ætti nú að vera grundvöllur allrar umræðu. Síðan er hitt hvernig við náum þeim markmiðum sem við ætlum að setja okkur á þessu sviði.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að á meðan Ísland er að skapa verðmæti og framleiða og hefur landsframleiðslu hér á mann sem er meðal þess mesta sem gerist í heiminum, eigum við ekki að þurfa að vera í umræðum um að framlög til lykilmálaflokka eins og þessa, menntamála á Íslandi, séu undir meðaltali samanburðarríkja. Það á ekki að vera þannig. Það er síðan önnur umræða hvort það sé best að miðað við hlutfall landsframleiðslu en við eigum auðvitað að horfa á árangurinn í þessum kerfum á sama tíma.

Virðulegi forseti. Hér er afar knappur tími skammtaður til að fara yfir stórt mál. Ég bendi á að í fjárlagafrumvarpinu er mjög aukið við verkefni á sviði samgöngu- og fjarskiptamála. Ég vil sömuleiðis láta þess getið að samhliða fjárlagafrumvarpinu endurspeglar tekjuöflunarfrumvarpið sem verður í sérstakri umræðu hér á þinginu áherslur ríkisstjórnarinnar. Ég vísa sömuleiðis til stjórnarsáttmálans um þau mál sem ríkisstjórnin vill beita sér fyrir á því sviðinu, um mikilvægi þess að við náum góðri sátt við vinnumarkaðinn um þau efni sem mun á endanum ráða miklu um dagsetningar og einstaka útfærslur í þeim málaflokkur.

Ég læt máli mínu lokið, enda tími minn á enda. Ég ætla einfaldlega að ljúka máli mínu á því að segja að þetta fjárlagafrumvarp er (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarp fyrir land sem er í sókn. Við erum að sækja fram á grundvelli þessa fjárlagafrumvarps. Við erum í sókn í átt til bættra lífskjara fyrir alla landsmenn. Það er með þeim orðum sem ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni (Forseti hringir.) vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar. Ég ítreka ósk um gott samstarf við nefndina sem ég veit að fæst við gríðarlega krefjandi verkefni í mikilli tímaþröng og óska henni góðs gengis í því.