148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ekki verður mjög vart við áherslu Sjálfstæðisflokksins í þessu stjórnarsamstarfi, alls ekki í stjórnarsáttmála og raunar ekki heldur í fjárlagafrumvarpinu sem hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnir hér í dag. Það er helst á hæstv. ráðherra að heyra að hann sé hvað stoltastur af því hvað honum sé að takast að auka útgjöld ríkisins mikið og er þá nýr tónn sleginn hjá formanni Sjálfstæðisflokksins.

Þegar hæstv. ráðherra var spurður að því í gær hvar væri helst að finna áherslur flokksins í stjórnarsáttmála þá talaði hann um skattalækkanir, Sjálfstæðisflokkurinn hefði iðulega verið andsnúinn skattahækkunum og hér sæju menn áhrifin af því að skattar yrðu lækkaðir. Hæstv. ráðherra: Hvar verða skattar lækkaðir? Maður verður ekki mjög var við það í þessu frumvarpi. Hins vegar er á ýmsum stöðum verið að hækka skatta.

Hæstv. fjármálaráðherra ríður á vaðið með nýrri ríkisstjórn undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og kynnir skattahækkanir, m.a. 50% hækkun á kolefnisgjaldi og látið fylgja sögunni að það sé aðeins byrjunin. Við megum eiga von á enn frekari hækkunum þar og raunar ætli menn sér að finna fleiri skatta, nýja græna skatta og leggja þá á til viðbótar.

Eins hef ég sérstakan áhuga á að heyra álit hæstv. ráðherra á því hvort og þá hvenær hann hyggist standa við þau fyrirheit sem hann gaf í byrjun árs 2016 um að lækka tryggingagjald með tilteknum hætti. Frumvarpið sem hæstv. ráðherra kynnir nú sýnir stöðuga hækkun á þeim álögum sem atvinnulífið er látið standa undir með greiðslu tryggingagjalds, gjaldstofninn hækkar um yfir 8%, m.a. vegna aukins mótframlags í lífeyrissjóði. En það er ekkert gert. Það er ekkert gert (Forseti hringir.) til þess að standa við þau fyrirheit sem hæstv. ráðherra gaf fyrir nærri því tveimur árum.